150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

aðkoma stjórnvalda að lífskjarasamningunum.

[15:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra aðeins út í forsendur fyrir aðkomu stjórnvalda að stöðugleikasáttmálanum svonefnda. Nú er ljóst að hrannast hafa upp óveðursský í efnahagslífinu. Á almennum vinnumarkaði hafa tapast um 6.000–8.000 störf á undanförnu ári og við heyrum neikvæðar fréttir, því miður, allt of víða; úr ferðaþjónustu, úr sjávarútvegi með brostnum forsendum fyrir loðnuvertíð enn eitt árið og síðast úr Hafnarfirði með grundvallarendurskoðun á starfsemi álversins í Straumsvík, byggingariðnaður er í töluverðri niðursveiflu og svo mætti áfram telja. Það er ljóst að þetta gæti að mörgu leyti orðið okkur þungt ár og það er alveg ljóst að þær launahækkanir sem samið var um í lífskjarasamningunum á sínum tíma eru umtalsverðar og maður heyrir það úr atvinnulífinu að fjölmörg fyrirtæki kvíða þeim hækkunum sem fram undan eru og telja sig jafnvel þurfa að grípa til enn frekari hagræðingaraðgerða.

Það er þess vegna athyglisvert að fylgjast með þeirri kjaradeilu sem er á opinbera vinnumarkaðnum núna þar sem launastefnunni sem mörkuð var í lífskjarasamningunum virðist kerfisbundið hafa verið hafnað. Það er kannski enn athyglisverðara að henni er hafnað af verkalýðsfélögum sem stóðu að lífskjarasamningunum á sínum tíma. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því að lífskjarasamningurinn var gerður á sínum tíma, sagði, með leyfi forseta:

„Forsenda fyrir aðgerðum ríkisstjórnarinnar er að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins vinni saman að bættu samspili hagstjórnar og kjarasamninga og nýjum vinnubrögðum á vinnumarkaði.“

Því miður minna þær kjaradeilur sem nú standa yfir fremur á þau gömlu vinnubrögð en þau nýju sem þarna voru boðuð. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Sér hún fyrir sér að forsendur ríkisstjórnarinnar fyrir aðkomu að lífskjarasamningum haldi ef sú launastefna sem þar var mörkuð verður brotin af þeim sömu stéttarfélögum og að honum stóðu og í raun og veru opinbera vinnumarkaðnum í heild eins og nú virðist stefna í?