150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

opinber fjármál.

145. mál
[16:27]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir hans framsögu í athyglisverðu máli sem snýr að breytingu á lögum um opinber fjármál og þeirri grein sem kveður á um að fjármálaáætlun, sem er sannarlega viðamikið mál eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, sé lögð fram í síðasta lagi 1. apríl ár hvert. Það sé æskilegt að færa það fram í tíma fyrir alla umfjöllun um málið hér á þingi og fyrir umsagnir. Þetta er mikilvægt vegna þess að þetta er sannarlega mjög viðamikið mál og í stefnumörkun hins opinbera felst auðvitað bæði fjármálastefna og fjármálaáætlun og svo samkomulag við sveitarfélögin.

Það sem ég ætlaði að koma inn á í spurningum til hv. þingmanns snýr að því sem liggur framar, þ.e. farveginum og vinnunni sem þarf að fara fram í stofnunum og í ráðuneytum og hvað sé af praktískum ástæðum mögulegt í því samhengi. Svo er annað sem þarna kemur til af því að kveðið er á um það í lögunum að taka skuli tillit til efnahagslegra forsendna og taka mið af hagspám o.s.frv. Það þarf að skoða betur og ég hygg að það gæti verið verkefni nefndarinnar af því að þetta er ekki mjög ígrundað í greinargerð með frumvarpinu, þ.e. endinn fyrir framan. En það yrði vissulega til bóta og ég tek undir með hv. þingmanni að við gæfum þinginu meira rými til að fjalla um áætlunina. Ég held að þetta sé gerlegt og fyrst og fremst þarf að fara fram vinna um þetta en ég spyr hvort hv. þingmaður hafi kannað sérstaklega, af því að það skorti svolítið á það í greinargerðinni, þennan tíma fyrir framan.