150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

opinber fjármál.

145. mál
[16:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir svarið. Já, það er rétt sem hv. þingmaður kemur inn á, þessar praktísku forsendur fyrir því að loka fyrr síðasta fjárlagaári, það þarf að gerast. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er gerlegt. Þau svör sem ég hef fengið úr stofnunum eru líka á þann veg að það sé gerlegt. Ég held að aginn og reglufestan í kringum lögin og fjárlagaferlið allt geri það að verkum að nú erum við í færum til að klára fjárlagaumræðu fyrr. Það styður það. Þá er það hitt sem kemur að pólitíkinni. Við getum rakið það til síðasta árs að þá breyttum við, vegna breyttra efnahagsforsendna, ríkisfjármálastefnu áður en við kláruðum ríkisfjármálaáætlun. Þær aðstæður kunna að koma upp að fara þurfi í gegnum slíkt. Það færir rök fyrir því að vera fyrr á ferðinni með fjármálaáætlun, losa um þann tíma, ef fara þarf í slíkar aðgerðir. En á móti kemur að það gæti reynst pólitíkinni erfitt, þ.e. sitjandi ríkisstjórn, að klára sig í gegnum þau mál og þær hagspár sem eiga að liggja til grundvallar þannig að það er ákveðin klemma þar sem þyrfti að skoða.

Ég held að það sé allrar athygli virði að reyna að færa dagsetninguna framar. Ég held að það sé bara verkefni frekar en að það sé ógerlegt, svo að ég taki það fram. Ég held að það sé bara býsna skemmtilegt að fara í gegnum vangaveltur um að ná að færa þetta framar í tíma og þurfi fyrst og fremst að vinna það með þeim sem vinna að fjármálaáætlun. (Forseti hringir.)

Það er annað sem ég vil koma á framfæri. Það þarf líka að ná samkomulagi við B- og C-hlutann og svo sveitarfélögin, eins og kveðið er á um í lögum.