150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

opinber fjármál.

145. mál
[16:34]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi síðasta hlutann, hann er ekki eins viðkvæmur fyrir tíma og aðrir hlutar, t.d. það að loka fjárlögum síðasta árs til þess að hafa grunninn fyrir komandi fjármálaáætlun. Ég er meira að segja ekki alveg 100% viss á því að það þurfi nauðsynlega að loka fjárlögum síðasta árs, hafa nákvæmnina í rammanum fyrir næsta ár upp á nokkrar krónur, því að fólk veit það nokkuð nákvæmlega strax í lok desember hvernig árið er að fara að klárast og nokkurn veginn hvers konar ramma þarf fyrir komandi ár í kjölfarið. Af því að fjármálaáætlunin á einmitt ekki að vera alveg hárnákvæm upp á krónur, hún er sveigjanleg að einhverju leyti. Þess vegna leyfir hún varasjóði og ýmislegt svoleiðis til þess að koma til móts við áföll og ónákvæmar kostnaðargreiningar. Um þetta snýst fjármálaáætlun einmitt, þetta er stefna stjórnvalda sem þau setja fram með sinni forgangsröðun og kostnaðargreiningu á þeirri forgangsröðun. Þannig að ef það gerist og upp koma einhverjar aðstæður í efnahagslífinu sem kalla mögulega á endurskoðun fjármálastefnu — það var náttúrlega varað við því að einhverju leyti að fjármálastefna væri of stíf, það er búið liðka aðeins til núna og er jákvætt, fjármálaáætlun er líka kannski pínulítið stíf, þyrfti kannski að hrista til í römmunum hvað það varðar að skilgreina hvað gerist ef efnahagslífið dregst saman — þá kemur einmitt að forgangsröðuninni og kostnaðargreiningu á henni. Ef farið er að harðna í ári þá sjáum við strax í forgangsröðunarlistanum hvaða verkefni dragast saman eða er hægt að seinka. Það er þá orðið innbyggt í fjármálaáætlunina, sem er bara jákvætt.