150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

opinber fjármál.

145. mál
[16:36]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með hv. þingmann og fyrsta flutningsmann. Ég hélt að hann yrði svo stífur á öllum gormum að hann myndi ekki vera tilbúinn til að hvika í neinu frá skrifuðu orði í tillögunni, og ég gæti komið hér upp sem frjálslyndi maðurinn sem vildi eitthvað hnika til. Hann gerir mér þann óleik að vera einmitt mjög opinn fyrir hugmyndum um hvernig hægt sé að bæta þessa, að ég tel, athyglisverðu tillögu. Ég held að ég og hv. þingmaður séum í grundvallaratriðum sammála um þörfina á bak við tillöguna.

En að öllu gríni slepptu langaði mig samt að koma hingað upp og eiga orðastað við hv. þingmann þó að hann hafi, forseti, í einhverju svarað vangaveltum um dagsetningu. Ég hef áhyggjur af henni. Ef við horfum á ferlið eins og það er, þar sem embættisfólk þarf að klára talnagrunninn í fjárlagafrumvarpinu áður en vinna við næstu áætlun hefst og varla hægt að loka því fyrr en allar breytingar hafi verið gerðar hér o.s.frv., þá finnst mér 1. febrúar ansi vel í lagt. Það þyrfti einmitt, eins og hér hefur svo sem komið fram, margt annað að breytast miklu fyrr í ferlinu áður en við næðum því, ef við náum því einhvern tímann. Mig langaði í fyrra andsvari að fá hv. þingmann til að koma betur inn á það. Þó að hv. þingmaður hafi dregið það fram er mikilvægt að draga fram að þetta er, að mínu viti, ekki endilega raunhæf dagsetning strax. En sú hugsun að fjármálaáætlun sé aðalmálið á vorþingi og þingið hafi tíma til að ræða það að gera breytingar hugnast mér vel.