150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

opinber fjármál.

145. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara koma því á framfæri að ég er einstaklega samvinnuþýður þegar kemur að góðum rökum sem eru lögð í púkkið. Já, ég vakti aðeins athygli á þessu í fyrra andsvari varðandi það að loka römmunum. Eins mikill formalisti og ég er sem setur ákveðna ramma þá erum við samt kannski eilítið of nákvæm með að loka síðasta ári upp á nákvæmlega krónu. Það er ekki nauðsynleg nákvæmni fyrir fjárlagaramma næstu fjármálaáætlunar af því að hún er í milljónum og tugum milljóna til eða frá. Upplýsingarnar liggja yfirleitt tiltölulega vel fyrir í lok desember og jafnvel aðeins fyrr. Við höfum oft fengið heimsóknir í fjárlaganefnd þar sem verið er að kynna lokastöðu ársins og séð er fram á greiðslur upp á svo og svo mikið þannig að búast má við því að árið klárist á þessum mörkum. Vikmörkin þar eru ekkert gríðarlega mikil og það er mjög auðvelt að glíma við þau vikmörk ef þau reynast óeðlileg eða illviðráðanleg í meðhöndlun þingsins, eins og er mjög mikið gert með fjárlögin hvort eð er. Þetta er því ekki óeðlilegt. Þetta er bara sú staða sem við leggjum almennt upp með 1. febrúar, miðað við þær upplýsingar sem við höfum, og ef það reynist byggt á mjög röngum forsendum — miðað við reynslu mína í fjárlaganefnd er ólíklegt að það komi upp, fólk veit veikleikana með tiltölulega miklum fyrirvara en hvort við í fjárlaganefnd fáum að vita það með miklum fyrirvara er annað mál (Forseti hringir.) — og það ætti að duga til þess að geta alla vega hafið vinnuna við fjármálaáætlun á nógu nákvæmum forsendum.