150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

opinber fjármál.

145. mál
[16:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Athyglisverðar umræður þykir mér. Mér heyrist við allir hv. þingmenn sem höfum tekið þátt í þessari umræðu vera sammála um að segja að fjármálaáætlun verði aðalmálið á vorþinginu og kalli á meiri umræðu og meiri breytingar og að mínu viti meiri pólitík inn í umræðuna því að hvergi birtist pólitík betur en í fjármálum hins opinbera. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort núverandi framsetning setji því einfaldlega ekki skorður að ná þessu markmiði og í kjölfarið velti ég því fyrir mér hvort við séum kannski að byrja á öfugum enda með annars mjög góðri tillögu hv. þingmanns, sem ég er mjög ánægður með að skuli koma hér fram til að við getum rætt þetta.

Ég hef horft til laga um opinber fjármál. Ýmsar tilfinningar hafa bærst í mér við það. Ég er ánægður með mjög margt, síður með annað. Ég hef horft á það þannig að við séum að koma á fót nýju ferli sem er ekkert smáræðisferli. Við höfum svo sem heyrt endalausar ræður um fyrstu árin þar sem alltaf var verið að skipta um ríkisstjórn o.s.frv. Ég velti fyrir mér, nú þegar reynsla er að komast á ferlið, hring eftir hring, hvort þurfi ekki bara einhverja allsherjarúttekt á þessu, jafnvel að við myndum leita til alþjóðastofnana sem færu aðeins yfir það hvernig það hefur gengið að innleiða þetta hjá okkur. Allt frá tímafrestum og því hvernig þetta kemur inn á dagskrá þingsins yfir í framsetningu o.s.frv., hvort það sé kannski eitthvað sem við eigum að gera frekar en að taka út eina dagsetningu. Ég ítreka þó að ég er sammála hugmyndinni á bak við þá breytingartillögu.