150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

starfshópur um útgáfu öruggra opinberra skilríkja.

180. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er sammála flestu ef ekki öllu sem þar kom fram. Hvað varðar eignarhaldið á slíku batteríi finnst mér einboðið að það eigi að vera á höndum hins opinbera. Ef það er hið opinbera sem gerir ákveðnar kröfur um að við ákveðnar aðstæður þurfum við að bera á okkur ákveðna tegund skilríkja eiga viðskiptasjónarmið ekki að ráða för þar. Viðskiptasjónarmið eiga ekki að ráða för við útgáfu ökuskírteina eða útgáfu vegabréfa eða nafnskírteina, svo að dæmi séu tekin. Þess vegna finnst mér að eignarhaldið eigi að vera á hendi hins opinbera, enda er um að ræða sjálfsagða þjónustu sem við veitum borgurum þessa lands af því að við krefjum borgarana um þetta.

Þarna kom ég líka aðeins inn á hvernig þetta yrði víðtækara því að hér er hugsunin að hægt sé að gefa út opinber örugg skilríki sem tækju yfir allt sem ég hef hér talið upp. Að sjálfsögðu eru svo sérstakar reglur sem gilda um vegabréf, fyrst og fremst þau, en einnig ökuskírteini. Hv. þingmaður kom ágætlega inn á þá þróun sem orðið hefur í umræðunum í starfshópi um stafræna stjórnsýslu o.fl. Eins og ég nefndi hér áðan hafa menn farið að huga að því að gefa út ökuskírteini á rafrænu formi. Það er t.d. gert í Finnlandi, svo að dæmi sé tekið. Eistar eru sérstaklega eftirtektarverðir hvað þetta varðar. Eistneska ríkið hóf útgáfu fjölnota rafrænna skilríkja árið 2002 í tengslum við skilríki á korti, ekki á símum. Ég kem kannski inn á norræna samstarfið seinna, ég sé að tíminn er búinn, en það er alltaf hugað að því að Íslandsrótin sé hér, svo að ég taki það fram.