150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

starfshópur um útgáfu öruggra opinberra skilríkja.

180. mál
[17:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér hefur ítrekað verið bent á það að allir þingmenn og bara öll stjórnsýslan eins og hún leggur sig ætti að fara í heimsókn til Eistlands til að kynnast því hvernig rafræn stjórnsýsla ætti að virka. Maður hefur heyrt sögur af ríkisstjórnarfundum þar sem klárast á tveimur mínútum, þar sem búið er að ýta á alla atkvæðatakkana af því að það er á formlegum forsendum að það þurfi að vera í sama herbergi eða eitthvað svoleiðis. Annars hefðu fundirnir getað klárast án þess að fólk hittist. Rafræna stjórnsýslan þar býður upp á slíka möguleika. Maður sér að hugmyndir um rafræn skilríki skapa hagkvæma og örugga möguleika fyrir fólkið í landinu til að vera í samskiptum við hið opinbera, jafnvel í kosningum; þetta gæti verið ákveðinn grunnur að einhvers konar rafrænni kosningu, eins og undirskriftalistanum sem eru nú þegar í gangi á island.is. Þörfin er tvímælalaust til staðar og það er jákvætt að fá með þessum starfshópi víðtækari hugmyndir um hvernig hægt væri að haga þessu

Grunnspurningin sem ég var með áðan er: Hvernig er þetta miklu meira en það sem rafræn skilríki Auðkennis gera núna og ríkið myndi þá taka yfir eða gera bara aftur? Af hverju þarf meira en það? Ég hef ekki alveg áttað mig á þessum fjölnota rafrænu skilríkjum, hvernig þau virka. Það væri vel þegið ef hv. þingmaður vildi kannski koma aðeins inn á það.