150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

háskólar og opinberir háskólar.

185. mál
[18:13]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta er einmitt það sem ég er að velta fyrir mér af því að mér finnst það skipta máli hvernig framkvæmdin verður. Erum við að leggja til að allir þeir sem í háskóla sækja þurfi að fara í inntökupróf? Hvað eru margir í háskólum í dag, eru það 20.000, tugir þúsunda? Ég þori ekki alveg að fara með það. Hvaða áhrif hefur það? Ég ætlast ekki til að fá svör við því núna, ég vil bara velta því upp hvað við erum að leggja til með þessu, hvort aðrar leiðir séu mögulegar, enda er svo sem ekki sagt fyrir um það hér. Eitt er að leggja inntökupróf fyrir í ákveðinni deild eða skor þar sem er mikil aðsókn, annað er að það verði almenn krafa til að komast inn í háskóla. Það er reyndar þannig í sumum háskólum, það þarf að þreyta inngöngupróf. Ég vil að við áttum okkur á því hvað þetta þýðir því að það breytir ansi miklu fyrir stóran hluta þeirra sem sækja í háskóla í dag, að við séum meðvituð um það.

Aftur að síðari spurningu minni áðan sem hv. þingmaður ætlaði að koma inn á hér á eftir. Mér finnst orðalagið þar heldur opið. Ég skil góðan hug flutningsmanna, ég tek það fram, forseti, ég er ekki með einhvern sparðatíning til að vera með leiðindi og ég efast ekki um að tekið verður á þessu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, þ.e. að við sjáum hvað það er þegar talað er um viðurkennda háskóla á sambærilegu sviði. Að öðru leyti vil ég bara ítreka, (Forseti hringir.) forseti, að mér finnst hugmyndin sem að baki þessu býr mjög góð.