150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[15:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að vitna í Þórberg Þórðarson og ógleymanlega málsgrein í Bréfi til Láru, með leyfi forseta:

„Mér er eintal sálarinnar óþrotlegur auður. Dögg jarðarinnar, þytur vindanna, geislar hnígandi kvöldsólar, stjörnubjartur næturhiminn, mánans milda bros, lygn vötn, fornar húsatættur, gamlir sorphaugar, blámi fjarlægra fjalla, skuggar dimmra dala, ljósbrot í strendu gleri, þögn hjarta míns — í þessu finn ég lyfting hins eilífa lífs.“

Sami höfundur sagði reyndar líka:

„Bækur eru saklausir hlutir, en rithöfundar eru ægilegar verur.“

Af hverju er ég aðeins að vitna í Þórberg Þórðarson? Jú, það er vegna þess að við sækjum ótrúlegan kraft í bókmenntaarfleifð okkar. Ég tel að með tæknibyltingunni, samskiptabyltingunni og öllu því sem við erum að fara í gegnum, sé lykilatriðið að koma bókmenntaarfinum okkar á stafrænt form, hann lifi í hinum stafræna heimi. Það eru alveg ótrúleg tækifæri fólgin í því vegna þess að börnin okkar vilja vita allt um íslenskuna og allt um íslenskt mál.

En mig langar, vegna þess að ég sé að tíminn tifar hér, að segja að númer eitt er að við þurfum að tryggja fjármögnun í verkefnið. Við þurfum að huga að þessu með IP-tölurnar og ég er alveg sammála því að það er mjög stór hópur Vestur-Íslendinga og Íslendinga sem býr erlendis sem hefur áhuga á þessu viðfangsefni okkar. Og svo verð ég að nefna líka að kynning til almennings, eins og fram kom hér í máli margra þingmanna, er mikilvæg vegna þess að við höfum sett heilmikinn metnað í það að setja tungumálið okkar á stafrænt form. En fólk þarf líka að vita af því.

Að lokum vil ég þakka öllum þingmönnum sem hafa tekið hér til máls og sérstaklega hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir að hafa frumkvæði að því að biðja um þessa skýrslu.