150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

viðurkenning á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

389. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum, viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

Með frumvarpinu er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/ESB um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Efni tilskipunarinnar varðar viðurkenningu á menntun til að gegna starfi sem er lögverndað og það að afla skuli faglegrar menntunar og hæfis áður en heimilt er að hefja störf á viðkomandi sviði.

Með frumvarpinu verður stjórnvöldum heimilt að veita takmarkaða viðurkenningu til starfa. Í umsögn námsbrautar í sjúkraþjálfun er bent á að í tilviki sjúkraþjálfunar virðist slíkt ómögulegt í framkvæmd. Tilgreina þyrfti þær starfsgreinar sem hafa slíka takmarkaða viðurkenningu. Þá komu fram sambærilegar athugasemdir varðandi iðngreinar að vandséð væri í hvaða tilvikum þetta gæti átt við sem og að óljóst væri í hvaða tilvikum væri unnt að aðskilja atvinnustarfsemina frá annarri starfsemi sem félli undir hina lögvernduðu iðngrein og þá hver hefði eftirlit með störfum viðkomandi einstaklinga og því hvort þeir gengju inn í verk sem viðurkenningin næði ekki til.

Nefndin bendir á að hvert tilvik á að skoða sérstaklega. Á þetta einkum við um störf sem byggjast á sömu eða sambærilegum kröfum um þekkingu og hæfni þar sem starf í gistiríki tekur til fleiri verkþátta og er yfirgripsmeira en í heimaaðildarríki. Í því sambandi tekur nefndin fram að þeim stofnunum sem fara yfir og afgreiða umsóknir um evrópskt fagskírteini er jafnframt falið að taka ákvarðanir um í hvaða tilvikum veiting takmarkaðrar viðurkenningar er viðeigandi, en slíkt gerist ekki sjálfkrafa. Nefndin áréttar mikilvægi þess að fagráðuneyti kveði í reglugerð nánar á um tiltekna málsmeðferð fyrir ákveðnar starfsstéttir. Nefndin beinir því jafnframt til hvers fagráðuneytis að huga að því hvernig eftirliti með starfsgreinum er háttað í þessum efnum og hvort það er nægilega skilvirkt og gagnsætt.

Í umsögn iðnaðarmannafélaganna var bent á að taka yrði mið af sérstöðu Íslands varðandi fólksfjölda. Þannig væri sérhæfing sem finna mætti erlendis ekki í eins ríkum mæli hér á landi. Fámenni gerði það að verkum að lögverndaðar iðngreinar væru í flestum tilfellum yfirgripsmeiri. Þá væru aðstæður hér á landi ekki samanburðarhæfar við þau lönd sem við berum okkur saman við.

Nefndin tekur fram að ekki er gert ráð fyrir að sameiginlegar menntunarkröfur komi í stað þeirra sem gerðar eru í aðildarríkjum nema slíkt sé ákveðið innan ríkjanna sjálfra. Þá er það mat nefndarinnar að frumvarpið slaki ekki á kröfum um menntun og starfsreynslu enda beri að skoða hvert tilvik sérstaklega eins og reifað er hér að framan. Þá beinir nefndin því til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að kanna hvort mögulegt er að tilgreina þær starfsgreinar sem hafa sameiginlegar menntunarkröfur á island.is.

Þá voru umsagnaraðilar jákvæðir fyrir því að einstaklingar sem fá viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi skuli búa yfir nauðsynlegri tungumálakunnáttu til að geta lagt stund á starfið á Íslandi. Við meðferð málsins kom fram að ekki væri ljóst hver sú tungumálakunnátta ætti að vera en jafnframt komu fram sjónarmið um að setja þyrfti lágmarkskröfur í þeim efnum og tryggja samræmi, t.d. að gerð væri sama krafa um íslenskukunnáttu til hjúkrunarfræðinga og lækna. Nefndin bendir á að tungumálakunnátta er ekki skilyrði viðurkenningar heldur er gert ráð fyrir að tungumálakunnátta sé könnuð eftir að viðurkenning er veitt eins og nánar verður kveðið á um í reglugerð sem sett verður með stoð í lögunum. Þá er gert ráð fyrir aðkomu vinnuveitanda við mat á nauðsynlegri tungumálakunnáttu til að sinna starfi á viðkomandi vinnustað. Áskilnaðurinn skal þó vera réttmætur og nauðsynlegur vegna hlutaðeigandi starfsemi. Hins vegar er heimilt að krefja umsækjanda yfirlýsingar um nauðsynlega íslenskukunnáttu ef um er að ræða starf sem varðar öryggi sjúklinga og kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum, samanber c-lið 5. gr. frumvarpsins. Nefndin tekur undir það sjónarmið að tryggja verði samræmi um tungumálakunnáttu innan stéttar, svo sem heilbrigðisstéttarinnar. Í því samhengi bendir nefndin á mikilvægi þess að tryggja aðgengi að íslenskunámi, sérstaklega þegar gerð er krafa um nauðsynlega íslenskukunnáttu.

Í frumvarpinu er það nýmæli að starfsnámsnemendur eiga þess kost að fá viðurkennt vinnustaðanám innan löggiltra starfsgreina sem fer fram annars staðar en í heimalandinu.

Nefndin bendir á að ákvæði um viðurkenningu vinnustaðaþjálfunar á eingöngu við um nemendur sem eiga að geta fengið þjálfun sem þeir öðlast í öðru EES-ríki viðurkennda. Samkvæmt iðnaðarlögum hafa nemendur heimild til þess að starfa í löggiltri iðn á meðan þeir stunda nám sitt. Nefndin tekur fram að heimilt er þó að setja reglur um hámarkslengd vinnustaðaþjálfunar og hún kemur ekki í stað prófa sem stjórnvöld gera kröfu um til þess að viðkomandi fái að starfa innan tiltekinnar greinar. Þá áréttar nefndin að lögbærum stjórnvöldum er heimilt að krefjast þess að umsækjandi gangist undir uppbótarráðstafanir, hæfnispróf eða aðlögun ef menntun hans eða starfsreynsla er verulega frábrugðin því sem krafist er hér á landi. Með hliðsjón af framansögðu er það mat nefndarinnar að frumvarpið víki ekki frá kröfum um starfsreynslu í heimaríki.

Í nokkrum umsögnum var kallað eftir samráði við viðkomandi stéttir þegar unnið verður að drögum að reglugerðum á grundvelli laganna. Nefndin áréttar mikilvægi þess að hlutaðeigandi fagráðuneyti hafi samráð við hagsmunaaðila í þessum efnum og hafi til hliðsjónar þau sjónarmið um hæfis- og menntunarskilyrði sem koma fram í umsögnum um málið vegna viðkomandi starfsstéttar.

Nefndin leggur síðan til lítils háttar orðalagsbreytingar til lagfæringar og leiðréttingar. Helgi Hrafn Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með fyrirvara samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Að því sögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í álitinu.

Undir álitið skrifa Páll Magnússon, formaður, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Halla Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, með fyrirvara, og Þórarinn Ingi Pétursson.