150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

leiga skráningarskyldra ökutækja.

386. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja. Framsögumaður málsins er ekki við svo að ég sem formaður tek að mér að mæla fyrir nefndarálitinu.

Nefndin fékk til sín fjölda gesta til þess að fjalla um þetta mál. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að Samgöngustofu verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir á leyfishafa sem hefur orðið uppvís að því að breyta kílómetrastöðu skráningarskylds ökutækis sem skráð er hjá Samgöngustofu sem ökutæki í notkunarflokki ökutækjaleigu.

Líkt og nánar er rakið í greinargerð með frumvarpinu felur breyting á kílómetrastöðu akstursmælis í sér villandi viðskiptahætti og gefur ranga ásýnd af ökutæki og rekstri leyfishafa til að hagnast fjárhagslega. Oftast er um að ræða að kílómetrastaða ökutækis er færð niður þannig að akstursmælir gefi ranga mynd af notkun bifreiðar. Háttsemin getur þannig komið í veg fyrir að eigandi eða umráðamaður ökutækis geti framfylgt reglubundnu viðhaldi öryggisbúnaðar og nauðsynlegum viðgerðum í tæka tíð. Þegar um ræðir ökutæki sem er í eigu ökutækjaleigu fær leigjandi hennar því rangar upplýsingar um ástand og eftir atvikum öryggi bifreiðar. Háttsemin er því til þess fallin að raska umferðaröryggi, en getur einnig valdið þeim sem kaupa bifreið á eftirmarkaði tjóni.

Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að sú háttsemi að færa niður kílómetrastöðu ökutækis væri ekki einskorðuð við ökutækjaleigur. Viðurlög sem beindust eingöngu að ökutækjaleigum leystu því aðeins hluta vandans. Í því sambandi kom fram það sjónarmið að viðurlög ættu almennt að liggja við niðurfærslu kílómetrastöðu ökutækis enda færi háttsemin almennt fram í þeim tilgangi að auka andvirði bifreiðar á kostnað hagsmuna þess sem kaupir eða leigir hana.

Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur mikilvægt að skýr viðurlög séu við því að færa niður akstursmæla ökutækja almennt. Bendir meiri hlutinn á að samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins um reglubundnar prófanir á aksturshæfni vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra og um niðurfellingu á tilskipun Evrópusambandsins skuli aðildarríki tryggja að, að því er varðar eftirlit með kílómetramæli, þar sem kílómetramælir er venjulega settur upp, skuli upplýsingar úr fyrri prófun á aksturshæfni gerðar aðgengilegar skoðunarmönnum um leið og þær eru tiltækar á rafrænu formi.

Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið þess efnis að kveða þyrfti skýrar á um þá mælikvarða sem leggja beri til grundvallar við töku ákvörðunar um annars vegar stjórnvaldssektir og hins vegar niðurfellingu starfsleyfis. Meiri hlutinn bendir í því sambandi á að Samgöngustofa er í öllum tilfellum bundin af stjórnsýslulögum og mun við töku ákvarðana þurfa að líta til þeirra mælikvarða sem fram koma þar. Meiri hlutinn telur ekki ástæðu til þess að leggja til grundvallar sérstaka mælikvarða við ákvörðun um stjórnvaldssektir eða niðurfellingu starfsleyfis í þeim tilfellum sem hér um ræðir, umfram þá sem leiðir af stjórnsýslulögum.

Meiri hlutinn telur einnig rétt að taka fram að heimild til að sekta ökutækjaleigur fyrir breytingu á akstursmælum ökutækja kemur til viðbótar við almenn úrræði Samgöngustofu samkvæmt lögunum. Þannig eiga eftir sem áður við ákvæði laganna um heimild Samgöngustofu til að fella niður leyfi til reksturs ökutækjaleigu ef leyfishafi eða forsvarsmaður verður uppvís að misnotkun á leyfi eða brýtur á annan hátt gegn ákvæðum laganna. Þá má einnig gera ráð fyrir því að slíkt mál kunni að varða við almenn hegningarlög.

Meiri hlutinn hvetur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið til þess að fylgjast með þeim áhrifum sem fyrirhugaðar breytingar hafa í för með sér, m.a. með hliðsjón af því hvort þær sektir sem lagðar eru til hafi tilætluð varnaðaráhrif.

Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að málið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta skrifa sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, ásamt Njáli Trausta Friðbertssyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Ásmundi Friðrikssyni og Kolbeini Óttarssyni Proppé.