150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

224. mál
[16:46]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Það eru blendnar tilfinningar fólgnar í því að standa hér aftur og mæla fyrir þessu máli. Gleði vegna þess að ég vonast til að loksins nái málið fram að ganga og málið er gott. En að einhverju leyti minni gleði yfir því að þurfa að standa hér aftur og mæla fyrir nokkru sem á að vera jafn sjálfsagt og það að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og setja bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

Forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mælt er fyrir þessu máli. Raunar er þetta í fimmtánda skipti sem það er gert þannig að hér má segja að kominn sé gamall og góður kunningi en allt er þá fimmtán er eða eitthvað í þá veru gætum við sagt því að löngum hefur allt er viðkemur vígbúnaði, vopnum, her og hersetu hér á landi valdið deilum í ákveðnum hópum, fólk hefur haft mismunandi skoðanir á því. En það er mín trú, eftir að Alþingi sameinaðist um þjóðaröryggisstefnu, að nú ætti í það minnsta að vera einhugur meðal þingmanna um að láta þetta mál fá framgang. Og þó að góð vísa sé aldrei of oft kveðin er kannski óþarfi að fara í miklum smáatriðum yfir þetta mál svo kunnugt ætti það að vera hv. þingmönnum.

Í sem stystu máli snýst frumvarpið um það, eins og kemur fram í 1. gr., að Ísland sé friðlýst svæði þar sem bannað sé að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorkuvopn. Umferð kjarnorkuknúinna farartækja er bönnuð á hinu friðlýsta svæði, samanber þó ákvæði 10. gr., og einnig flutningur eða losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs.

Svo að ég einhendi mér beint í 10. gr., sem vísað er í, þá segir í henni:

„Þrátt fyrir ákvæði 6. og 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. er heimilt að veita undanþágu fyrir friðsamlega umferð eða gegnumferð farartækja án óþarfa viðdvalar í eða á sjó eða í lofti á alþjóðlegum leiðum að því marki sem nauðsynlegt er til að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum. Slíkar undanþágur geta þó aldrei tekið til svæðisins innan 12 sjómílna marka og lofthelginnar þar upp af. Þetta ákvæði takmarkar ekki rétt allra ríkja til friðsamlegrar ferðar um landhelgina í skilningi hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982.“

Það er með öðrum orðum tekið tillit til þess að í einhverjum tilvikum gæti þurft að veita undanþágur þó með þeim takmörkunum sem þarna eru reifaðar.

Forseti. Í 2. gr. segir á hnitmiðaðan hátt frá tilurð og hugmyndinni á bak við þessa lagasetningu:

„Markmið laga þessara er að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorkuvopnalaust, afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar, draga úr hættunni á kjarnorkuóhöppum á Íslandi og í grennd við Ísland og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.“

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, forseti sæll, að nokkur sem situr á hinu háa Alþingi geti verið á móti þessum markmiðum. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hve hættuleg kjarnorkuvopn eru eða kjarnorka í formi eldsneytis til að knýja farartæki. Og hvað myndi gerast hjá okkur, á eyju úti í miðju ballarhafi, sem treystum á auðlindir landsins, ef hér yrði kjarnorkuslys? Við höfum áhyggjur af ýmsu, hvort við náum mjúkri lendingu í efnahagslægð, hvort takist að reisa við ferðaþjónustuna o.s.frv. — en þetta færi allt út um gluggann.

Þetta er alvörumál, forseti, og ábyrgð okkar mikil á því að búa svo um hnúta að svo verði ekki. Þörfin hefur kannski aldrei verið meiri en akkúrat nú. Áratugum saman var heimurinn í járngreipum kalds stríðs, ógnarjafnvægis, þar sem hættan við beitingu kjarnorkuvopna var slík að enginn þorði að beita þeim; hættan við afleiðingar beitingar, fælingarstefnan svokallaða. Alþjóðasamfélagið gerði ýmsa sáttmála sín á milli til að draga úr þeirri hættu, fækka kjarnorkuvopnum og gera heiminn þar með örlítið friðsamlegri. Á síðustu árum hefur hins vegar kvarnast úr þessu með ýmsum nýjum valdhöfum víða um heim, með annarri sýn á alþjóðlegt samstarf, með áherslubreytingu þar sem valdhafar hugsa fyrst og fremst um ímyndaðan hag eigin ríkis, leyfi ég mér að segja, forseti, en minna um alþjóðasamfélagið, minna um heiminn og jörðina sem við byggjum öll. Þörfin fyrir að Ísland hafi frumkvæði að afvopnun og friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum hefur því miður fremur aukist en hitt vegna atburða á alþjóðavettvangi. Má nefna fregnir af því að Bandaríkin hafa afturkallað aðild sína að kjarnorkusáttmálanum við Íran, kjarnorkuvopnavígvæðingu Norður-Kóreu og þá staðreynd að kjarnorkuveldin hunsa algerlega samninginn um að dreifa ekki kjarnavopnum — og sá heitir upp á ensku, með leyfi forseta: Treaty on the Non-Proliferation of Nuclear Weapons, NPT— sem skyldar þau til kjarnorkuafvopnunar. Þá horfa kjarnorkuveldin með auknum áhuga á norðurslóðir.

Forseti. Þar kemur enn ein ástæðan fyrir því að þörfin er meiri en nokkru sinni fyrr á að samþykkja þetta frumvarp. Aukinn áhugi, ekki bara stórvelda heldur ýmissa þjóða, á norðurslóðum, með breyttum aðstæðum þar, ekki síst í kjölfar loftslagsvárinnar, gerir hættuna á umferð kjarnorkuvopna eða kjarnorkuknúinna farartækja enn meiri. Það er því von flutningsmanna að Alþingi geti nú sameinast og lögbundið þann yfirlýsta vilja stjórnvalda að Ísland eigi engan þátt í þróun, geymslu eða flutningi kjarnorkuvopna og stuðli þannig að friðvænlegri heimi.

Flutningsmenn eru að þessu sinni þingmenn úr þremur flokkum sem eiga sæti á Alþingi og eru auk mín hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir. Ég fullyrði það, forseti, að þetta er engan veginn tæmandi listi yfir stuðningsfólk þessa frumvarps.

Það má benda á að yfirgnæfandi meiri hluti sveitarfélaga hér á landi hefur lýst því yfir að landsvæði þeirra skuli vera friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. Raunar er staðan sú að aðeins þrjú sveitarfélög hafa ekki skrifað undir slíka yfirlýsingu: Reykjanesbær, Skútustaðahreppur og Grímsnes. Ef við sjáum fyrir okkur Íslandskort og drögum landsvæði þessara þriggja sveitarfélaga frá því er ansi hreint mikið eftir af Íslandskortinu. Raunin er sú að sveitarfélög sem þekja nánast allt Ísland, með þessum undantekningum, og vissulega eru landmikil sveitarfélög líka þarna undir, hafa nú þegar lýst yfir friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum. Þrátt fyrir að yfirlýsingar á sveitarstjórnarstigi hafi ekki lagalegt gildi má líta á þær sem afgerandi yfirlýsingu frá sveitarfélögum landsins um að friðlýsa beri landið allt. Ekkert ætti að standa í vegi fyrir því að þessi fyrirliggjandi vilji yfirgnæfandi meiri hluta sveitarfélaga verði lögfestur fyrir landið allt. Því fylgdi svo einnig að afla alþjóðlegrar viðurkenningar annarra ríkja og alþjóðasamtaka, ekki síst kjarnorkuveldanna sjálfra, á því að Ísland sé kjarnorkuvopnalaust svæði.

Forseti. Við tölum stundum um það hér að við eigum að hlusta á vilja sveitarstjórna. Við erum að vinna ýmsar áætlanir þar sem við vísum til vilja sveitarstjórna. Ég nefni stefnumótun fyrir sveitarfélög almennt. Hér er vilji sveitarfélaga skýr. Öll nema þrjú hafa lýst því yfir að þau séu friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. Hlustum á það, forseti. Þörfin hefur sjaldan verið meiri. Ég fór hér yfir það hvernig alþjóðasamningar hafa veikst, því miður. Það má einnig nefna að Bretar ræða nú endurnýjun á sínu vopnabúri, þar með talið á kjarnorkuvopnum. Því miður er ekki annað að heyra en að Frakklandsforseti sé jafnvel með metnað í þá átt að gera sig meira gildandi á þessu sviði. Það þarf ekki að velkjast í vafa um þörfina fyrir því að við drífum í því að samþykkja þetta mál.

Þá má nefna ráðgefandi álit Alþjóðadómstólsins í Haag um beitingu kjarnorkuvopna og ógnun þess. Að mati meiri hluta dómsins myndi ógnun eða hótun og beiting kjarnorkuvopna stríða almennt gegn alþjóðalögum sem gilda í vopnuðum átökum og sérstaklega alþjóðlegum mannúðarrétti. Eðli kjarnorkuvopna sé þannig að beiting þeirra muni ávallt bitna á óbreyttum borgurum, auk þess sem þau hafi neikvæð umhverfisáhrif og enn meiri skaða óbreyttra borgara. Þarf forseti einhver frekari rök en þetta fyrir því að við friðlýsum landið okkar fyrir þessum vopnum?

Það væri að æra óstöðugan að rekja forsögu þessa máls sem er hér, eins og ég sagði áðan, flutt í fimmtánda sinn. Listi yfir hv. þingmenn sem hafa verið flutningsmenn málsins er býsna langur og ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér forsöguna sem ítarlega er farið yfir í tillögunni. Eins og ég sagði áðan eru miklar vonir til þess að ekki þurfi að flytja þetta mál aftur. Það tókst ekki að klára þetta síðast og ég hygg að skýringin hljóti að vera sú að vegna tímaleysis hafi ekki tekist að klára málið því að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hv. þingmenn sem samþykktu þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland 13. apríl 2016 hyggist ekki greiða atkvæði með þessu máli. Og af hverju? Jú, vegna þess að 10. áhersluatriði umræddrar þjóðaröryggisstefnu hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.“— Það er akkúrat það sem þessi tillaga gengur út á.

Þjóðaröryggisstefnan var samþykkt með 42 samhljóða atkvæðum. Ég vonast til þess að eins fari með þessa tillögu, ekki endilega að atkvæðin verði 42 heldur verði hún samþykkt hér samhljóða. Hér er einungis verið að hnykkja á stefnu sem var samhljóða samþykkt innan sala Alþingis og við hljótum öll að sameinast um að þetta mál fái framgang.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, forseti. Ég gæti haldið mjög langa tölu um þessi mál því að þau eru mér mjög hjartfólgin og ættu að vera okkur öllum og ég hygg að þegar grannt er skoðað séu þau það kannski. Ég hvet hv. þingheim til að taka þessu máli opnum örmum, muna eftir samþykktri þjóðaröryggisstefnu og markmiðum hennar, festast ekki í úreltri gamaldags hugmyndafræði þegar kemur að viðhorfi til hernaðar og vopnavígbúnaðar, horfa fram á veginn og friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum.