150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

224. mál
[17:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það þarf engan að undra að kannski komi fleiri úr þingflokki Vinstri grænna til að ræða akkúrat þetta mál. Það er kannski þannig þegar upp er staðið að þetta mál snýst ekki um vinstri og hægri í þessum sígilda stimplaleik stjórnmálanna. Við heyrðum það áðan, þegar við hlustuðum á ræður um stafræna endurgerð íslensks prentmáls, hve þingheimur getur stundum verið sammála, þegar vinstri og hægri virðast ekki tilheyra umræðunni. Í annað sinn á nokkrum áratugum sjáum við fram á að spenna vaxi á milli stórvelda sem öll eru meira eða minna kjarnorkuveldi og þá horfir maður til þeirra tveggja þingmála sem nú liggja fyrir þinginu.

Annars vegar er um að ræða það mál sem við ræðum hér, frumvarp um bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja og hernaðartækja hér á Íslandi og friðlýsingu landsins fyrir kjarnorkuvopnum. Hitt málið er þingsályktunartillaga sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir hefur lagt fram og snýst um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Bæði þessi mál eru þess eðlis að mjög erfitt er að stimpla þau vinstri eða hægri. Ég ætla að leyfa mér að eyða smátíma hér á Alþingi, annars vegar sem pólitíkus eða þingmaður með ákveðna siðferðiskennd og hins vegar sem náttúrufræðingur, og fara nokkrum orðum um þessi mál, koma með vangaveltur og spurningar, jafnvel siðferðislegar spurningar.

Kjarnorkuvopn hafa sett ótal atriði í alþjóðalögum og alþjóðasamskiptum í nýtt ljós alveg frá lokum síðustu heimsstyrjaldar. Mönnum kann að þykja það furðulegt að skilgreina lögleg stríð og ólögleg stríð. Til eru alþjóðasamningar um allt ofan í meðferð stríðsfanga. Spurningin er hvort tilvist og notkun kjarnorkuvopna sé þess eðlis að raunverulega sé ekkert til lengur sem heitir löglegt eða ólöglegt stríð. Hvort sem kjarnorkuvopn væru notuð í ólöglegu eða löglegu stríði væru það í raun endalok þess löglega samfélags sem reynt hefur verið að byggja upp. Við höfum reynt að skilgreina lögleyft mannfall, sá er líka fáránleiki nútímans. Það má sem sagt drepa hermenn en ekki almenna borgara. Það er því til eitthvað sem heitir lögleyft mannfall. En þegar kjarnorkuvopn eru notuð er sá aðskilnaður horfinn, hann er ekki lengur til. Það setur líka þetta lögformlega samfélag okkar eða lögstýrða alþjóðasamfélag í sérkennilegt ljós.

Skilgreining stríðsglæpa gerir það sömuleiðis. Við vitum jú öll að stöðugar deilur hafa staðið um það hvort notkun kjarnorkuvopna í Hírósíma og Nagasaki hafi raunverulega verið stríðsglæpur eða ekki. Þarna var jú löglegt stríð á ferðinni samkvæmt alþjóðalögum en svo er manndráp í fyrrum Júgóslavíu skilgreint sem stríðsglæpir. Þetta snýst líka um þjóðarmorð. Hversu marga þarf að deyða með vopnum til að það sé þjóðarmorð? Hvers vegna væri þá ekki notkun kjarnorkuvopna ávallt þjóðarmorð? Eða er það vegna þess að það verður þá í löglegu stríði?

Menn sjá á þessum vangaveltum og spurningum hversu langt við erum komin frá manneskjunni sjálfri. Þess utan eru áhrif kjarnorkuvopna óskaplega langvinn, langæ eins og menn segja gjarnan, og eyðandi á mælikvarða sem er þannig að öllu lífríki á jörðinni væri stórlega ógnað, ekki bara mannfólkinu heldur öllu öðru lífríki, þannig að áhrifin eru þess eðlis að það sem við köllum lögbundið alþjóðasamfélag lægi meira eða minna í valnum. Frammi fyrir kjarnorkuvopnum má líka velta vöngum yfir gagnseminni. Ef ég væri hershöfðingi hér í stólnum myndi ég sennilega verja kjarnorkuvopnin vegna þess að þau væru gagnleg á einhvern máta. Þá er spurningin: Er það þá ógnarjafnvægi, eins og kom fram í máli hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés, eða eru það afköstin? Er það þess vegna sem kjarnorkuvopnin eru gagnleg? Ógnarjafnvægi er svo tvíbent að ef einhver raskar jafnvægi öðrum megin þá raskast jafnvægið hinum megin jafn mikið. Áhrifin eru langt út fyrir landsvæði þess sem notar kjarnorkuvopnin fyrst. Ógnarjafnvægi finnst manni því í raun innantómt orð. Eins og allir sem láta sig þessi mál varða friðarmegin hafa margoft sagt þá er enginn sigurvegari í styrjöld þar sem kjarnorkuvopnum er beitt. Með afköstin: Verði vopnin notuð verða þá stríðin stutt? Þá má spyrja á móti: Sólarhringslangt stríð með mikilli notkun kjarnorkuvopna, er það stutt stríð og æskilegra en langt stríð? Eða erum við að hugsa þetta þannig að einungis ein kjarnorkusprengja verði notuð og þá gefist allir upp? Er það virkilega hugsunin? Þannig mætti velta fyrir sér þessari gagnsemi sem ráðamenn hljóta að hafa í huga þegar þeir eru að verja tilvist kjarnorkuvopna. Réttlætingin hlýtur þá að felast í tilvistinni, því sem ég er að lýsa, eða notkuninni verði af styrjöld. Fyrir mér og sennilega þorra jarðarbúa er réttlætingin í raun engin. Það er ekkert sem réttlætir tilvist eða notkun kjarnorkuvopna enda, og það er löngu vitað, er nóg til af afkastaminni en nógu ógnandi vopnum og nóg svigrúm fyrir þá sem enda í stríði að nota þau án þess að nota kjarnorkuvopn og jafnvel vinna sína sigra.

Í mínum augum eru kjarnorkuvopnin ævintýraleg fjöldadrápstæki sem verður að útrýma sem fyrst. Það þarf auðvitað að endurvinna samninga sem nú eru meira að segja í uppnámi á vissu sviði og takmarka sem mest umferð þeirra um höfin og loftið og löndin meðan þau eru til. Þess vegna eiga þingsályktunartillagan sem hér liggur fyrir og frumvarpið skilið að komast alla leið til atkvæðagreiðslu í þinginu. Sennilega eru allir 63 þingmenn á íslenska þinginu innst inni mótfallnir tilvist og notkun kjarnorkuvopna. Það sem stendur í vegi fyrir því að þetta gangi smurt er auðvitað aðild okkar að ákveðnu hernaðarbandalagi. Það eru varnarmálin, öryggismálin, sem skoðanir eru skiptar um. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma. En þetta er auðvitað það sem skiptir okkur í tvær ólíkar fylkingar. Hvernig sem á það er litið, miðað við stöðu heimsmála, miðað við stærð mannkyns, miðað við önnur vandamál sem við erum að fást við, og þá á ég t.d. við umhverfismál og loftslagsbreytingar, þá ætti Ísland, íslenska þingið, íslenska ríkisstjórnin, að brjóta í blað með því að ganga fram fyrir skjöldu sem aðili að hernaðarbandalagi og sjá til þess að bæði þessi mál komist í höfn.