150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

241. mál
[17:46]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Birgi Þórarinssyni. Við eigum sögu í því að beita okkur á þessu svæði, þ.e. með því að tala við alla deiluaðila. Það er alveg augljóst mál og ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni hvað það varðar. Ég hyggst ekki einu sinni kalla það lausn, tillögur um friðsamlega lausn, þegar Bandaríkjamenn, í samtali við annan aðilann, leggja fram hugmyndir án þess að ræða við hinn og, eins og hv. þingmaður fór hér yfir, í óþökk hins deiluaðilans. Það er ekki raunverulegur friðarvilji sem þar býr að baki, hygg ég. Það er mín skoðun.

En aftur, forseti, langar mig að þakka þingmanninum fyrir upplýsandi ræðu og andsvar. Af því að hv. þingmaður ítrekaði varnaðarorð gegn því að sniðganga vörur og tiltók mjög fín rök við því þá langaði mig bara að velta því upp hvort það sem hér er lagt til sé ekki ósvipað því sem hv. þingmaður fór yfir að gert hefði verið t.d. á vettvangi Evrópusambandsins, ef ég tók rétt eftir, og hvort hv. þingmaður sé ekki fylgjandi því að vörur framleiddar á hernumdum svæðum séu merktar.