150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

skipan nefndar til að meta stöðu og gera tillögur um framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

264. mál
[18:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir prýðisræðu, yfirgripsmikla og á köflum ágætissöguyfirlit. En það var eitt sem vakti athygli mína, og mig langaði bara að óska eftir því að hv. þingmaður staðfesti að ég hefði heyrt það rétt, þ.e. að þingmaðurinn meti það sem svo að það sé minna skref í dag að gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu úr þeirri stöðu sem við erum í núna en það var á sínum tíma að gerast aðili að EES-samningnum. Það er bara þetta, hvort ég skildi þennan hluta ræðunnar rétt, að þingmaðurinn meti það sem svo að það sé minna skref að gerast fullgildir aðilar að Evrópusambandinu frá núverandi stöðu okkar en það var að gerast aðili að EES-samningnum á sínum tíma.

Af því að ég veit að hv. þingmaður mun hafa smátíma til að svara viðbótarspurningu: Metur hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir það sem svo að Grikkir, svo að ég taki dæmi, hafi haft mikið skjól af Evrópusambandinu í efnahagsþrengingum sínum?