150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

kolefnismerking á kjötvörur og garðyrkjuafurðir til manneldis.

265. mál
[18:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka fyrir þessa þingsályktunartillögu aftur en hún kom fram á 149. þingi eins og áður var sagt. Það komu nokkrar umsagnir fram þegar tillagan var lögð fram síðast og er búið að breyta henni aðeins, t.d. að bæta við garðyrkjuafurðum og líka að tiltaka það að m.a. komi fram upplýsingar um kolefnisspor vegna flutnings viðkomandi vöru. Það er mikilvægt að það standi einmitt „m.a.“ því ef það kæmu bara fram upplýsingar um kolefnisspor flutninganna væri það náttúrlega mjög villandi. Mjög mikilvægir tveir stafir, m.a.

Mig langaði til þess að fræðast aðeins hjá flutningsmanni um þær umsagnir sem komu og vöktu athygli á vissum halla í kolefnisfótspori innfluttrar vöru og íslenskrar framleiðslu. Það kom t.d. fram í útvarpinu í morgun þar sem var talað um kolefnisfótspor vegna flutninga að það væri mismunandi eftir því hvaða vöru væri verið að flytja inn, endingartíma hennar og þess háttar, en það væri kannski á bilinu 1–5% af kolefnisfótsporinu, þ.e. flutningurinn sjálfur væri ekkert gríðarlega stór partur sem er svolítið áhugavert þegar maður skoðar það þannig. Það getur munað því hvort hann er með flugi eða skipi o.s.frv.

Með tilliti til þess þá sé ég ekki alveg, fyrir utan kannski garðyrkjuafurðirnar, miðað við umsagnir frá því síðast, hvað fleira það var sem hafði áhrif á breytingar í tillögunni núna.