150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

kolefnismerking á kjötvörur og garðyrkjuafurðir til manneldis.

265. mál
[18:45]
Horfa

Flm. (Þorgrímur Sigmundsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessar vangaveltur og spurningar. Varðandi endurvinnslu umbúða á matvælum þá er það náttúrlega málefni sem við sem samfélag erum að takast á við. Væntanlega hefur þingmaðurinn kannski haft plastumbúðir í huga. Það er í sjálfu sér, held ég, ekki aðalatriðið í plastumbúðum eða umbúðum almennt um matvæli og endurvinnslumöguleika á þeim, hvort við kaupum inn matvæli í plastumbúðum eða öðrum umbúðum eða flytjum umbúðirnar inn til að pakka matvælum framleiddum hér á landi í, væntanlega í flestum tilfellum frá sömu plastverksmiðjunum eða plastframleiðendunum. Mig langar hins vegar að nefna í þessu sambandi, þó að þingmaðurinn hafi ekki beinlínis komið inn á það, að nú skilst mér að Evrópusambandið sé hreinlega að setja talsverða peninga í að hvetja til aukinnar kjötneyslu, sem mér finnst áhugavert í þessu samhengi.

Aftur varðandi endurvinnsluna og já, til hvaða nefndar málið fer: Ég held það væri gaman, hv. þingmaður, og fróðlegt að fá atvinnuveganefnd til að skoða málið núna. Það hafa orðið á því lítils háttar breytingar, eins og þingmaðurinn vék að, við tökum m.a. garðyrkjuframleiðendur með í dæmið núna sem ekki var síðast. En endurvinnsluáskorunin verður til staðar hvort heldur sem (Forseti hringir.) afurðunum er pakkað hér eða annars staðar.