150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

kolefnismerking á kjötvörur og garðyrkjuafurðir til manneldis.

265. mál
[18:52]
Horfa

Flm. (Þorgrímur Sigmundsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek bara undir með hv. þm. Þorsteini Víglundssyni. Ég tel fulla ástæðu til að skoða heildarvirðiskeðjuna. Kannski var ég bara of hógvær fyrir hv. þingmann. Kannski er tillaga okkar fullhógvær en við erum alveg til í að koma með fleiri. (Gripið fram í.) Og af því að ég veit að þingmaðurinn hefur áhuga á málefninu geri ég frekar ráð fyrir því að tillaga þessi, þó að þingmaðurinn hefði gjarnan viljað hafa hana umfangsmeiri, fái heldur jákvæðar viðtökur hjá þingmanninum og þá eftir atvikum nefndinni. Prósentuleikfimin í þessu er reyndar talsvert flókin og ekki síst þegar þingmaðurinn vék að t.d. nautgriparækt, og prósentuleikfimin í þessu milli greinanna; nautgriparæktar, sauðfjárræktar, alifuglaræktar, annarra búrdýra o.s.frv., og svo innifelur þetta náttúrlega líka garðyrkjuafurðir. Þess vegna endurtek ég það sem ég sagði áðan við hv. þm. Þorstein Víglundsson að ég tel að þetta sé gerlegt núna með tiltölulega stuttum fyrirvara, sé til bóta, séu meiri upplýsingar fyrir neytendur og ágætt fyrsta skref á þeirri vegferð sem ég held að við getum báðir hugsað okkur að fara. Þó að við höfum kannski ekki alltaf getað hugsað okkur að vera samferða.