150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

myndlistarnám fyrir börn og unglinga.

287. mál
[19:46]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um myndlistarnám fyrir börn og unglinga. Flutningsmenn eru auk mín Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Arna Lára Jónsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Álfheiður Eymarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að hefja vinnu við gerð frumvarps til laga um myndlistarnám barna og unglinga með það að markmiði að auka veg sjónlista á Íslandi. Frumvarp þetta verði lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi. Við frumvarpsgerðina verði horft til þess fyrirkomulags sem gildir um nám í tónlist.“

Þá er kannski ágætt að nefna hvað markvisst tónlistarnám á Íslandi hefur gert. Nægir þar að nefna gríðarlega flottan árangur Hildar Guðnadóttur að undanförnu og algerlega óvíst að hún hefði verið í þeim sporum sem hún er ef hún hefði ekki sjálf notið góðrar tónlistarmenntunar og auðvitað alist upp hjá foreldrum sem gerðu það líka.

Myndlist hefur, líkt og tónlist, gildi í sjálfri sér en er einnig mikilvægur spegill á samtíma okkar. Þá er myndlistarnám grunnur undir margar aðrar greinar sjónlista sem skipta samfélagið miklu máli. Má þar nefna tölvuleikjagerð, grafíska hönnun, arkitektúr, iðnhönnun, ljósmyndun, fatahönnun og kvikmyndagerð. Það má segja að fyrir þessar greinar gegni myndlist sama hlutverki og rannsóknastarf innan og utan háskóla gegnir fyrir hefðbundnari greinar atvinnulífsins.

Skapandi greinar eru nú þegar orðnar meðal helstu undirstöðuatvinnugreina þjóðarinnar. Í dag er áætlað að um 20.000 manns starfi við skapandi greinar. Það er svipaður fjöldi og starfar við landbúnað og sjávarútveg samanlagt og u.þ.b. sami fjöldi og starfar í ferðaþjónustu sem er ein stærsta atvinnugrein landsins. Reyndar nefna ferðamenn menningu og listir sem eina af helstu ástæðunum fyrir komu sinni hingað til lands næst á eftir náttúrunni. Það má því segja að listirnar hjálpi líka upp á aðrar atvinnugreinar. Þá finnst mér skipta máli að í náinni framtíð, þegar við horfum til sjálfvirknivæðingar og gervigreindar, er talað um að meira en helmingur af hinum hefðbundnu störfum verði unninn án beinnar aðkomu mannsins. Það eru ekki síst greinar sem krefjast sköpunargáfu og frumkvæðis sem verða áfram unnar af okkur. Þó ekki væri nema bara út af því er mjög nauðsynlegt að efla vöxt skapandi greina. Það er lykilatriði að standa vel að listkennslu barna og unglinga og eins og ég sagði áðan þá sjáum við það best á blómlegu tónlistarlífi Íslendinga hvað markviss kennsla á þessu sviði getur gert.

Því miður er myndlistarnám barna og unglinga ekki í jafn góðum farvegi og tónlistarnámið. Þess vegna langar mig að beina athyglinni aðeins að því með þessu frumvarpi. Það er reyndar undir hælinn lagt hvort það er í boði í ásættanlegum mæli, og það fer eftir hverjum og einum skóla. Sjónlistir eru, eins og ég nefndi áðan, gríðarlega mikilvægur og sívaxandi hluti af efnahagslífi okkar. Því til stuðnings nægir að nefna rannsóknir Ágústs Einarssonar, fyrrverandi þingmanns, á hagrænum áhrifum þessara greina. Ég vil líka nefna að sökum tilviljanakennds framboðs og víða einskis framboðs á myndlistarkennslu fyrir börn og unglinga, fyrir utan hið hefðbundna skólakerfi, koma íslensk ungmenni oft mikið verr undirbúin í slíkt nám á framhalds- og háskólastigi en æskilegt væri. Ofan á það bætist að í niðurstöðum könnunar mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá því í mars 2017 kemur fram að verulegur misbrestur er á því hvernig skólar ráðstafa kennslumínútum til list- og verkgreina og jafnframt að sumir skólar verji engum tíma í 8.–10. bekk í kennslu list- og verkgreina.

Við Íslendingar höfum lengst af verið frumframleiðsluþjóð og komumst vissulega til bjargálna vegna náttúruauðlinda. Því er okkur svolítið tamt að telja skynsamlegustu nýtingu þeirra vera einu og vísustu tryggingu okkar fyrir gæfu um ókomna tíð. Þetta er auðvitað mörgum annmörkum háð. Við þurfum sífellt að vera á varðbergi gegn ofnýtingu og við þekkjum það líka að náttúran getur verið duttlungafull, veður geta verið válynd og gengd fiskstofna getur breyst og við fáum ekki rönd við reist. Svo breytast náttúrlega hugmyndir okkar um æskilega umgengni við náttúruna þannig að ég held að við þurfum í auknum mæli að fara að horfa á ný mið við atvinnuuppbyggingu þjóðarinnar, bæði til þess að breikka stoðirnar og fjölga þeim en einnig til að auka nýsköpun og þekkingariðnað á kostnað frumframleiðslu. Það er engin mótsögn í þessu vegna þess að skapandi greinar geta líka stuðlað að eflingu hefðbundnari greina og við sjáum það náttúrlega mjög vel í tækniframförum í sjávarútvegi þar sem hugvitið hefur skilað okkur betri hráefnisnýtingu, auknu verðmæti og bættum aðbúnaði starfsfólks. Hvað á þetta skylt við myndlistarnám? Jú, eins og ég nefndi áðan er myndlistarnám, eins og tónlistarnám og annað listnám, fyrst og fremst þjálfun í að nota hugann og finna hugvitssamar leiðir til að koma með lausnir.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra hér í dag en vil að að lokinni þessari umræðu, sem ég vona að verði fjörleg, verði málinu beint til allsherjar- og menntamálanefndar til frekari vinnslu.