150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

sala upprunavottorða.

[10:35]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Til þess að svara því fyrst hvort eitthvað hafi komið á óvart í þessari umfjöllun þá get ég ekki sagt að svo hafi verið. Við höfum auðvitað alloft rætt upprunaábyrgðir og þær eru mjög umdeildar. Ég finn mjög fyrir því að almenningur er heilt yfir kannski ekkert ofboðslega hrifinn af þessu fyrirkomulagi. Þetta er fyrirkomulag sem hefur verið hér við lýði síðan 2008 og er hluti af regluverki frá Evrópu sem við komum á fót hér og önnur lönd gera líka, önnur lönd sem framleiða græna orku gera líka. Ef við myndum ganga það langt að banna til að mynda, ef það er yfir höfuð hægt, fyrirtækjum að selja upprunaábyrgðir þá eru alla vega aðrir framleiðendur grænnar orku í öðrum löndum sem geta gert það og okkar framleiðendur gætu það þá ekki.

Því er stundum haldið fram að þetta kerfi eigi ekki við af því að við erum einangruð. En sú staðreynd að raforka verður ekki flutt á milli Íslands og annarra landa breytir því ekki að sala á upprunaábyrgðum héðan þjónar vissulega meginmarkmiði þessa kerfis, sem menn geta síðan haft skoðun á, sem er í grundvallaratriðum að gera framleiðslu á endurnýjanlegri orku fýsilegri frá sjónarhóli orkuframleiðenda en hún væri annars. Öll almenn fyrirtæki fá þessar ábyrgðir inni í verðinu, eru ekki að kaupa þær sérstaklega. En það á ekki við um stóriðjuna.

Ég hjó eftir því að rætt var um sölu upprunaábyrgða á Spáni, að það væru hindranir þar. En þær hindranir eiga eingöngu við um virkjanir sem voru reistar fyrir ríkisstyrki, þannig að hjá grænum virkjunum sem voru reistar þar á eftir hefur aukist mjög sala á þessum upprunaábyrgðum. Það eru auðvitað önnur lönd, (Forseti hringir.) eins og ég segi, sem eru með græna framleiðslu á raforku og það breytir því ekki að raforkan okkar er (Forseti hringir.) framleidd með grænum hætti. Upprunaábyrgðir breyta þeirri stöðu ekki.