150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

málefni ferðaþjónustunnar.

[10:53]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Þrátt fyrir að ferðamönnum hafi fækkað vil ég að það komi fram að þeir bæði dvelja lengur og eyða meiri fjármunum. Það er þrátt fyrir allt í samræmi við það sem við stefnum öll að, þ.e. að hver ferðamaður skilji meira eftir sig, markmiðið er ekki að fjölga þeim eða þeir séu svo og svo margir heldur að verðmætasköpun og arðsemi sé næg.

Varðandi dreifingu ferðamanna er það alveg rétt, það er viðvarandi verkefni og við höfum alls ekki lokið við allt sem þar þarf að gera. Þegar kemur að tugmilljarða innspýtingu í innviðafjárfestingar í landinu held ég að enginn standi hér og segi að þeim finnist það vond hugmynd. En það þarf bara að horfa á það í samhengi hlutanna; hvaða áhrif það hefur á ríkissjóð, hvaða fjárráð eru nú, hvað er rétt að gera efnahagslega þegar þessi staða er uppi. Kallað hefur verið eftir innviðafjárfestingum í nokkur ár. Það var ekki rétt að fara í meiri háttar fjárfestingar þegar umhverfið var þannig. Nú er annar tími uppi. En það þarf líka að horfa á það í hvað peningarnir hafa farið. Við höfum tekið ákvarðanir um að setja tugi milljarða í þau kerfi sem kallað hefur verið eftir að treysta; heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi, fæðingarorlof, atvinnuleysisbætur o.s.frv. (Forseti hringir.) Staðan er einfaldlega þannig að ekki er hægt að eyða sömu krónunni tvisvar. En nú eru vissulega tímar uppi þar sem kallað er eftir innviðafjárfestingu (Forseti hringir.) og það þarf þá að leita leiða til að gera það og þá má líka horfa á (Forseti hringir.) hvaða eignir ríkið á og hvaða eignir er hægt að selja til að nýta í það.