150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

íslenskur ríkisborgararéttur.

252. mál
[12:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er kjörinn útúrsnúningsmatur fyrir suma íhaldssamari flokka. F-liðurinn fjallar um að sá sem talinn er ógna mikilvægum þjóðarhagsmunum, öryggi ríkisins eða utanríkisstefnu þess eigi ekki rétt á íslenskum ríkisborgararétti.

Það hljómar svo sem ágætlega. Hins vegar er þetta ákvæði illa skýrt í greinargerð að mínu mati og sér í lagi hugtakið „mikilvægir þjóðarhagsmunir“. Þar er t.d. fjallað um viðskiptahagsmuni. Þá veltir maður upp spurningunni: Hvað ef hér býr Kínverji sem er með mikinn uppsteyt og mikil leiðindi og hefur mikil áhrif gagnvart kínverskum stjórnvöldum og kínversk stjórnvöld fara að hóta því að rifta fríverslunarsamningi við Ísland? Eru það mikilvægir þjóðarhagsmunir? Samkvæmt greinargerð er það óljóst og það þykir mér ótækt þannig að þótt markmið greinarinnar sé í sjálfu sér ágætt og réttlætanlegt þurfa svona hlutir að vera skýrir að mínu mati. Þar til viðbótar er þetta þegar skilyrði fyrir búsetuleyfi og því í rauninni óþarft að mínu mati þótt markmiðið sé í sjálfu sér jákvætt.

Ég sit hjá. Ég er ekki á móti greininni en ég sit hjá.