150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

555. mál
[12:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir fór yfir í sambandi við það hvort þetta byndi hendur persónuverndarfulltrúa of mikið vil ég bara koma því á framfæri fyrir mitt leyti, að hvaða gagni sem það kann að koma, að ég tel svo ekki vera vegna þess að textinn segir að persónuverndarfulltrúa sé „óheimilt að segja frá nokkru því sem hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara“.

Það er sjálfsagt að skoða þetta betur og hafa það á hreinu. Ef það er mögulegt finnst mér það góð málsmeðhöndlun en ég vildi koma upp í ljósi þessa og útskýra mína túlkun á ákvæðinu eins og hún stendur í dag með fyrirvara um téða skoðun.