150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

staða efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kólnun hagkerfisins.

[15:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að ræða þessi mál hér í þinginu, en við sjáum að hagspár eru að þróast á verri veg en við höfðum vonast til. Það er gríðarlega mikilvægt að við lesum rétt í óveðursskýin sem hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega. Það er augljóslega eitt meginviðfangsefni ríkisstjórnarinnar við gerð fjármálaáætlunar að tryggja að næstu ár séum við að stíga í takt við ölduna. Það má með vissum hætti segja að við höfum þegar í fyrra byrjað að bregðast við því að við værum komin að lokum þessa kraftmikla hagvaxtarskeiðs. Okkur hefur tekist á undanförnum árum að sjá lífskjör taka stakkaskiptum. Kaupmáttur launa hefur aukist um 40% á tíu árum og við höfum notað góð ár til þess að búa í haginn fyrir magrari ár og við njótum alveg tvímælalaust góðs af því í dag.

Hér er ýmsu velt upp. Það er nauðsynlegt að horfast í augu við það að við getum ekki fengið allt í senn; hæstu laun, mesta kaupmátt innan OECD, stystu vinnuviku og framúrskarandi fjárfestingarumhverfi fyrir atvinnulíf. Einhvers staðar verða þessir hlutir að vegast á. Það sem við sjáum í augnablikinu eru versnandi atvinnutölur. Við sjáum að það dregur úr fjárfestingu atvinnulífs og er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því. Við verðum að bregðast rétt við og við þurfum einfaldlega að taka heiðarlega umræðu um það hvaða afleiðingar það getur haft að stilla launastigið í landinu of hátt og að hvaða marki þær breytingar sem við sjáum í hagspá eru afleiðingar af því sem við höfum verið að gera á undanförnum árum.

Því er haldið fram að ríkisstjórnin hafi verið of bjartsýn í efnahagsmálum. Ég hef margoft sagt að við byggjum einfaldlega á opinberum hagspám og þá er í raun hægt að segja að þeir sem gagnrýna hagspárnar séu að gagnrýna þá sem að þeim standa. Ég hef verið þeirrar skoðunar og er enn að ríkisstjórninni sé ekki stætt á öðru en að byggja á opinberum hagspám, en síðan verður að vega og meta hverju sinni hvernig jafnvægis og varkárni er gætt við langtímaáætlanir.

En til að svara því sem hér er velt upp sérstaklega, hvort ríkisstjórnin hyggist grípa til sérstakra ráðstafana vegna breyttrar efnahagsþróunar á Íslandi, þá er svarið augljóslega já. Augljóslega er það eitt meginviðfangsefni þeirrar vinnu sem við nú stöndum í að bregðast við þessum aðstæðum og mikilvægt er að menn hafi í huga í því sambandi að við þurfum að bregðast við því að tekjur ríkisins eru að gefa eftir. Við þurfum þess vegna að bæta í þegar kemur að því að auka hagræði í opinberum rekstri, að gera betur, fá meira fyrir minna og koma fram með áætlun sem sýnir að við ætlum að rísa undir því sem ríkið er þegar að gera. Þar fyrir utan er áhugi hjá okkur til þess að hækka fjárfestingarstig opinberra fjármála og þar horfum við til þessara langtímaáætlana, sem m.a. liggja fyrir hér í þinginu, um einstök verkefni víða um landið. Við horfum til allra þátta í samgöngumálum, í fjarskiptum og víðar í mikilvægum málaflokkum eins og í heilbrigðismálum, í nýsköpun að sjálfsögðu, í menntamálum eftir atvikum o.s.frv. Þau mál og einstök uppröðun þeirra ræðst auðvitað á endanum af samtali hér við þingið.

Spurt er að því hvort við ætlum að hraða opinberum framkvæmdum og svarið við því er að það er ein meginnálgunin á þessi verkefni hjá okkur að finna leiðir til að hraða því sem við höfum verið með í pípunum, m.a. í samgönguáætlun. Mestu skiptir hér að við finnum trúverðugar leiðir til að fjármagna slíka hröðun. Mér finnst menn tala fullfjálglega um að nú eigi að hægja á uppgreiðslu skulda ríkisins vegna þess að við erum þegar komin í halla. Við erum ekki í neinni aðstöðu til þess að vera með stórkostlega uppgreiðslu skulda ríkisins á komandi árum. Við höfum reyndar nú þegar náð meiri árangri í uppgreiðslu skulda en maður gat séð fyrir. En ég myndi miklu frekar biðja menn um að fara að hafa áhyggjur af því hvernig við ætlum að fjármagna hallann frekar en að við séum með svo mikinn afgang að við förum fram úr okkur í uppgreiðslu skulda. Það er ekki sérstakt áhyggjuefni við núverandi aðstæður. Og varðandi skattana þá hljóta þeir áfram að vera til skoðunar en þess ber að geta að frumvarp um bankaskattinn þurfti ég að leggja í tvígang fyrir þingið til að fá það samþykkt. (Forseti hringir.) En það hefur sem betur fer verið samþykkt og tryggingagjaldið heldur áfram að lækka um næstu áramót.