150. löggjafarþing — 63. fundur,  24. feb. 2020.

aðgengi hælisleitenda að almenningssamgöngum.

343. mál
[16:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil gera aðstöðu hælisleitenda eða þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd að umræðuefni, sérstaklega þeirra sem búa á Ásbrú. Útlendingastofnun úthlutar íbúum í búsetuúrræðinu Ásbrú vissulega strætómiðum til að sinna erindum vegna umsókna sinna á höfuðborgarsvæðinu, t.d. vegna viðtala hjá Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og Rauða krossinum, sem og til að nýta sér þjónustu sérfræðilækna og sálfræðinga. Þetta er eftir því sem mér skilst allt í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir og það er gott og blessað. Strætókort fá þeir hins vegar einungis sem gildir í innanbæjarsamgöngum í Reykjanesbæ. Þó að þetta nægi til þess að vera í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir velti ég fyrir mér hvort þetta sé samt nóg að okkar mati til að rjúfa félagslega einangrun þessa hóps. Á hana hefur margoft verið bent.

Ég beini því þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvort ráðherra telji að sú tilhögun að veita hælisleitendum, sem vistaðir eru í bæjarfélögum í grennd við höfuðborgarsvæðið, einungis aðgang að almenningssamgöngum innan viðkomandi sveitarfélags sé fullnægjandi og dugi til að rjúfa einangrun þessa hóps.

Í framhaldinu spyr ég hvort ráðherra stefni að því að breyta þessari tilhögun svo að t.d. hælisleitendur sem búa á Ásbrú í Reykjanesbæ eigi hægara með að nýta sér strætisvagnasamgöngur til Reykjavíkur.

Þetta skiptir máli því að margoft hefur komið fram í umfjöllun að einmitt þeir hælisleitendur sem búa þarna búi við mikla félagslega einangrun. Sem betur fer er þetta betra í ýmsum öðrum búsetuúrræðum annars staðar, hvort sem þau eru rekin af sveitarfélögum eða öðrum aðilum, (Forseti hringir.) og þess vegna finnst mér mikilvægt að spyrja hæstv. ráðherra út í akkúrat þessi mál.