150. löggjafarþing — 63. fundur,  24. feb. 2020.

aðgengi hælisleitenda að almenningssamgöngum.

343. mál
[17:05]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir ágætisspurningar. Mig langar að leggja það til málanna að mér finnst virkilega mikilvægt að ræða um aðgengi flóttamanna að almenningssamgöngum. Mér finnst líka mjög mikilvægt að velta upp þeirri spurningu sem ég held að við þurfum að spyrja oftar og víðar en hér hvort það sé eðlilegt að Útlendingastofnun sé sú stofnun sem tekur stjórnvaldsákvarðanir og sú sama og veitir félagsþjónustu og að þetta komi allt saman úr sömu hítinni. Ég er ekki viss um að þetta sé endilega gott fyrirkomulag. Ég er ekki viss um að það setji endilega upp rétta hvata að það kosti Útlendingastofnun að halda uppi umsækjendum um alþjóðlega vernd á sama tíma og hún á að taka ákvarðanir um hvort viðkomandi eigi að hljóta alþjóðlega vernd.

Ég held að þetta samtal þurfi að eiga sér stað en (Forseti hringir.) hafi ekki átt sér stað af nægilega miklum krafti og að þetta sé stefnumótun sem þurfi að fara í. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé til skoðunar í ráðuneytinu.