150. löggjafarþing — 63. fundur,  24. feb. 2020.

aðgengi hælisleitenda að almenningssamgöngum.

343. mál
[17:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þessa umræðu hér og hv. þingmönnum sem tóku þátt í henni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við séum alltaf að skoða alla þætti þessarar löggjafar og þeirra reglugerða sem heyra undir þennan málaflokk. Þar er af mjög mörgu að taka og mjög mikilvægt að við veltum þessu upp. Hér er það hvaða þjónustu við erum að veita. Eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom inn á er þetta fólk í afar viðkvæmri stöðu og bíður málalykta í sínu máli á Ásbrú. Að mínu mati þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki til að mæta þörf eins og er ekki gert í Reykjanesbæ.

Það er rétt hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur að það verður svolítið valkvætt hverju er mætt en þótt almenn þjónusta sé ekki í boði erum við samt að veita almenningssamgöngur innan Reykjanesbæjar.

Síðan kom hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir einnig inn á annað mál um það hvort þjónustan eigi að vera á hendi Útlendingastofnunar. Þannig hefur það verið hér og er svo sem víða en við sjáum líka dæmi þess annars staðar að hún sé í ólíkum höndum. Þetta er nokkuð sem ég hef örlítið skoðað en ég veit ekki hvort það hefur verið skoðað ítarlega. Við þyrftum að skoða reynslu annarra landa sem hafa þjónustuna í ólíku lagi. Ég veit að Útlendingastofnun leggur sig alla fram við að veita góða þjónustu og að vera sveigjanleg einmitt í þessum reglum innan þeirra fjárheimilda sem hún þó hefur.

Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu og tel mikilvægt að við getum rætt einstaka þætti útlendingalöggjafarinnar með þessum hætti. Því oftar, því betra.