150. löggjafarþing — 63. fundur,  24. feb. 2020.

barnaverndarnefndir.

356. mál
[17:16]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Þingmaðurinn spurði bæði formlegu spurningarinnar og fór svo eiginlega í óformlega spurningu á eftir. Eins og þingmaðurinn þekkir er í barnaverndarlögum kveðið á um að barnaverndarnefndir eigi að vera sjálfstæðar og að þær eigi að tryggja að sveitarstjórn, sveitarstjóri eða aðrir aðilar fái hvorki upplýsingar né megi hafa áhrif á einstaka barnaverndarmál. Lögin eru alveg skýr með það. Til viðbótar við þetta, líkt og þingmaðurinn kom inn á, gilda vanhæfisreglur stjórnsýsluréttar um bæði nefndarmenn og starfsmenn sem koma að barnaverndarmálum. Þær reglur fela í sér að einstaklingar sem eru tengdir aðilum máls með einhverjum hætti mega ekki koma að vinnslu barnaverndarmála eða töku ákvarðana í þeim þar sem þeir hafa tengingar. Þessar reglur eiga að tryggja að einstaklingar sem teljast hagsmunaaðilar með einhverjum hætti komi ekki að vinnslu málanna.

Svo er alveg rétt sem þingmaðurinn bendir á, fyrir dyrum stendur stór heildarendurskoðun á öllu sem lýtur að þjónustu við börn. Eftirlit með þessu í dag er í höndum Barnaverndarstofu. Þó að lögin séu skýr hefðum við aldrei farið í þessa vinnu nema af því að ég vil sjá þau breytast. Hluti af þeim breytingum sem tengjast þeirri endurskoðun er frumvörp sem boðuð eru núna á þingmálaskrá á vorþingi, annars vegar frumvarp um heildarþjónustu við börn og hins vegar frumvarp sem lýtur að auknu eftirliti þegar kemur að velferð barna og felur í sér þá nýju hugsun sem á að koma í þessu nýja frumvarpi sem hefur verið unnið í samstarfi við alla þingflokka og öll ráðuneyti sem að því koma.

Í framhaldinu koma síðan ný barnaverndarlög sem taka líka á þessu og það höfum við rætt við Samband íslenskra sveitarfélaga og við sveitarfélögin almennt, m.a. fulltrúa í barnaverndarnefndum, að við sjáum fyrir okkur fækkun og stækkun barnaverndarnefnda og að gera starf þeirra faglegra. Ég held að þær séu allt of margar í landinu í dag. Það er í rauninni einn anginn af þessari breytingu en stóra breytingin er líka það aukna eftirlit sem við ætlum að innleiða sem byggir í rauninni á þessum nýju lögum, sem byggir á því að við ætlum að fara að hugsa þjónustu við börn ekki út frá því hver veitir þjónustuna heldur að þau þurfi þjónustu. Kerfin eiga að tala saman neðan frá en þegar kemur að þjónustu við börn á eftirlitsaðilinn að geta sinnt því þvert á kerfi líka.

Svarið er að þetta á að vera tryggt í lögum í dag. Ég vil samt sjá breytingar á kerfinu og ég held að við viljum það öll vegna þess að það hefur verið þverpólitísk samstaða um þátttöku í þessari vinnu. Ég vonast til þess að að fyrr en síðar sjáum við fyrsta frumvarpið sem lýtur að þessu koma inn í þingið og að við sjáum breytingar sem styrkja stöðu barna enn meira í íslensku samfélagi.