150. löggjafarþing — 63. fundur,  24. feb. 2020.

barnaverndarnefndir.

356. mál
[17:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vil nú meina að þetta séu mjög formlegar spurningar hjá mér og í raun bara smáútlegging á því sem lá fyrir í þessum fyrirspurnatíma sem er að spyrja nákvæmlega hvernig það sé tryggt að hagsmunaaðilar geti ekki haft áhrif á starf barnaverndarnefnda. Það er hægt að gera það með ýmsum hætti og hagsmunaaðilarnir geta verið ýmsir. Það fer svolítið eftir því hvernig við horfum á málin. Vissulega kemur fram að hæfisreglur stjórnsýsluréttar gildi um barnaverndarnefndamál eftir því sem við á. Eins og við hæstv. ráðherra vitum samt eru frekar ströng skilyrði, það er ekki hvaða kunningsskapur sem er sem myndi falla undir hæfisreglur stjórnsýsluréttarins. Þó getur það verið nóg til þess að hafa jafnvel áhrif á ákvarðanatöku í málum, almannarómur og annað slíkt, og þess vegna spurði ég ráðherra hvort honum fyndist eftirlitið fullnægjandi, hvort honum fyndist nægilega vel tryggt að óeðlileg sjónarmið eða óeðlilegir hagsmunir ráði ekki för við ákvarðanatöku þegar um er að ræða öryggi barna og vernd þeirra gegn ofbeldi.

Ég vildi svör frá ráðherranum hvort honum fyndist núverandi staða vera fullnægjandi. Í ljósi þess að verið er að endurskoða allt kerfið les ég á milli línanna að auðvitað finnist hæstv. ráðherra það þá ekki fullnægjandi. Ég á samt eftir að heyra hjá hæstv. ráðherra hvernig nýtt kerfi muni koma betur til móts við vernd barna gegn ofbeldi. Hvað er það við breytingarnar sem eru í farvatninu sem mun tryggja betur að óeðlileg sjónarmið ráði aldrei för þegar verið er að taka ákvarðanir um vernd barna gegn ofbeldi? Sömuleiðis spyr ég hvernig þær breytingar sem eru í farvatninu hjá hæstv. ráðherra muni auka vernd barna gegn ofbeldi.