150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

viðhald og varðveisla gamalla báta.

308. mál
[15:27]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að koma hingað aftur örstutt og þakka fyrir góða umræðu og þann skilning sem hv. þingmenn sýna þessu máli. Það er ánægjulegt að heyra hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur segja frá bát úr sinni heimabyggð sem hefur ekki komist á það stig að verða forngripur en þarf auðvitað sitt viðhald. Bátur er gerður úr því forgengilega efni sem er viður og þarf viðhald en getur enst von úr viti ef rétt og vel er búið um hnútana. Langbest fer á því að þessi skip og bátar séu í sjó og það er það sem við eigum að stefna að. Þessu fylgir mikill glæsileiki og fátt er fegurra en vel smíðaður bátur eins og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson kom inn á. Það ber vott um íslenskt listfengi og hugvit því að bátar voru smíðaðir víða um land og lagið á þeim var þekkt. Menn sóttust eftir lagi eftir því hvernig veðurlag, sjólag og öldulag var á hinum ýmsu svæðum í kringum landið.

Ég átti sjálfur gamlan bát og þekki dálítið vel hvað það er að viðhalda honum. Það tekur tíma að annast viðhaldið og það getur verið kostnaðarsamt fyrir þá sem ekki eru mjög laghentir. Stuðningur til einstaklinga er mikilvægur í verkefnum sem þessum, bæði fjárhagslegur og ekki síst að þeir fái leiðbeiningar og að það sé framkvæmt eftir einhverju skipulegu og þekkingarlegu ferli. Einn hluti af því sem er að gerast kannski, því miður, með því að við sinnum ekki viðhaldi og uppbyggingarverkefni á gömlum bátum er að handverkið tapast. Enn eru frábærir handverksmenn að störfum á nokkrum stöðum á landinu, ég þekki það á Vestfjörðum, og ungir menn jafnvel að vinna við hlið fullorðinna og læra af þeim en vonin ein heldur manni bjartsýnum um að þetta týnist ekki.

Ég vonast til þess að þetta efni fái umfjöllun. Við erum með tvær tillögur sem ég tel bara gott. Markmiðið er að við náum árangri með varðveisluna og uppbygginguna. Þessi tillaga, sem ég vona að fái að ganga til allsherjar- og menntamálanefndar, er borin fram af okkur þremur, hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni eins og hann nefndi sjálfur áðan og hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur ásamt þeim sem hér stendur, og ég vonast til þess að tillagan fái jákvæða umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd.

(Forseti (ÞorS): Í vinnuskjali forseta segir að tillagan gangi til síðari umr. og atvinnuveganefndar ef enginn hreyfir andmælum.)

Herra forseti. Ég hefði kosið að þessi tillaga fengi að ganga til allsherjar- og menntamálanefndar.

(Forseti (ÞorS): Tillagan gengur nú til síðari umr. og allsherjar- og menntamálanefndar.)