150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[15:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins út í ástæður þess að hann sé á móti þessari tilteknu tillögu með hliðsjón af því sem þingmaðurinn sagði. Hann sagði að það væri sjálfsagt að endurskoða fyrirkomulag smávirkjana en hins vegar kom skýrt fram í máli hans að hann væri ekki hlynntur þessu máli. Það eina sem ég sé í þessu máli sem á einhvern hátt gæti hugsanlega verið á skjön við það er að umsóknarferlið væri einfaldað. Tillagan felur í sér að markmið með endurskoðun þeirra laga og reglugerða væri að einfalda umsóknarferlið í tengslum við þær. Það felst ekki í tillögunni að sjálfkrafa eigi að gera það auðveldara að ganga á náttúruna. Það segir sig sjálft að smærri virkjanir krefjast ekki þeirra ítarlegu úttekta sem stærri virkjanir krefjast. Þess vegna finnst mér alveg sjálfsagt að reyna að einfalda umsóknarferlið í tengslum við þær. Ég átta mig ekki alveg á því hvað það er sem hv. þingmaður er á móti í þessari tillögu. Sömuleiðis verð ég að segja, og ég ætla að fara aðeins út í það í ræðu á eftir, að mér hefur fundist orðræðan úr hefðbundnum áttum umhverfisverndar gagnvart vatnsaflsvirkjunum einhliða, sér í lagi í ljósi loftslagsbreytinga og þarfar okkar fyrir rafmagn. Sú þörf er ekki að fara burt, hún er að aukast, hún er að aukast hér eins og annars staðar. Það eru enn fremur aukin tækifæri í að hafa nógu mikið af orku, jafnvel þó að orkuþörfinni sé fullnægt í samfélaginu. Mér finnst því skrýtið hvað það er einhvern veginn einhliða andstaða, ég skynja það sem andstöðu, við vatnsaflsvirkjanir eins og þær séu í eðli sínu gegn náttúrunni. En við erum ekki bara að vernda fallegt útsýni og einstakan dal eða hvað það er sem fólk vill vernda þegar það er á móti vatnsaflsvirkjunum, sem oft og tíðum geta verið fullkomlega lögmæt sjónarmið, til að mynda í Kárahnjúkavirkjun, sem ég var andsnúinn á sínum tíma, mér finnst líka vanta skilning á því að vatnsaflsvirkjanir (Forseti hringir.) eru sennilega umhverfisvænasta leiðin sem við höfum í dag, (Forseti hringir.) nema hv. þingmaður geti leiðrétt það, til að framleiða rafmagn. Það er umhverfisleg nálgun. (Forseti hringir.) Mér finnst vanta þá áherslu úr herdeildum Vinstri grænna.

(Forseti (ÞorS): Forseta láðist að geta þess að þrír hv. þingmenn hafa óskað eftir andsvari og hafa því eina mínútu til umræðna í síðara andsvari.)