150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[16:07]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að óhætt sé að segja að verið sé að bera í bakkafullan lækinn þegar það koma þrír í andsvör við hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé. (Gripið fram í: Aldrei of mikið.) En þetta er fróðleg umræða og margir ágætir punktar hafa komið hér fram. Vissulega er það þannig að 9,9 MW virkjun er mikil virkjun og það þarf töluvert meira en bara einhvern smálæk til að hægt sé að virkja 9,9 MW. Ég þekki ágætlega til virkjunar sem verið er að byggja nálægt mér sem á að framleiða 5,6 MW. Það er vissulega feikileg framkvæmd. Og spurningin sem ég myndi varpa til hv. þingmanns í þessari umræðu er að kannski ættum við að flokka smávirkjanirnar meira upp, bændavirkjanirnar sjálfar, þ.e. litlu vatnsföllin, og síðan að stíga næsta skref í þeim flokki sem hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir fjallar um í sinni þingsályktunartillögu því að þarna er himinn og haf á milli. Það er líka himinn og haf á milli þegar við förum síðan upp í enn þá stærri virkjanir. Mig langar að beina því til hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés hvort við ættum ekki að fara þá leið að skilgreina betur hvað felst í raunverulegum smávirkjunum.