150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[17:06]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann eins. Vandamálið í þeirri stöðu sem nú er uppi er að í aðalskipulaginu í Reykjavík er gert ráð fyrir norður/suður-braut Reykjavíkurflugvallar, aðalflugbraut vallarins til 2022, í tvö ár í viðbót. Brautin dettur af aðalskipulagi eftir rúm tvö ár samkvæmt því skipulagi ef menn fara í það og þá mætti í sjálfu sér loka vellinum vegna þess að með einni flugbraut yrði nýtingarhlutfallið einhvers staðar á bilinu 75–80%. Hvernig eigum við að leysa þetta?

Nú er hv. þingmaður hluti af stjórnmálaafli sem er í meiri hluta í Reykjavíkurborg, á aðkomu að meiri hluta borgarstjórnar. Það sem verið er að kalla eftir er að við fáum skýra sýn á það hvernig við ætlum að gera þetta næstu árin þannig að staða flugvallarins í Vatnsmýrinni sé tryggð þangað til við erum búin að finna jafn góðan eða betri kost.

Hv. þingmaður kom í ræðu sinni inn á Hvassahraunsflugvöll. Þeir sem gerst þekkja til tala um að það sé ferli sem taki 13–17 ár. Þarf þá ekki að koma þessu í einhvern farveg í stóru myndinni til að tryggja stöðuna meðan verið er að kanna annan kost? Ekki getum við verið með flugvöllinn án aðalskipulags, að ekki sé gert ráð fyrir honum þar eftir tvö, þrjú ár. Hvernig eigum við að vinna okkur út úr þessu á sama tíma og borgarstjóri í Reykjavík hefur varðandi umræðu um Hvassahraun talað um að ekki standi til að tryggja stöðu Reykjavíkurflugvallar með því að breyta aðalskipulagi borgarinnar? Hvernig sér hv. þingmaður þetta fyrir sér?