150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[17:10]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að öllum sé ljóst að það er búinn að vera bútasaumur gegn vellinum í töluvert langan tíma. Ekki hefur verið hægt að sjá nokkurn vilja til samningaviðræðna af hendi borgarinnar frá 2013 þegar samkomulag var gert í október það ár. Hvað liðu margar vikur þangað til Reykjavíkurborg samþykkti deiluskipulagsbreytingar á Hlíðarenda eftir það samkomulag sem snerist um svokallaða Rögnunefnd, að skoða kosti og fara í gegnum hluti? Átta vikur liðu þar á milli. Það er mjög erfitt að sjá fyrir sér einhvern samningsvilja í öllu þessu ferli. Kannski væri hægt að spyrja hv. þingmann: Hver er þá tillagan? Hvernig nálgumst við málið?

Ég benti í ræðu áðan á hvernig þetta er í öðrum samfélögum í kringum okkur. Þau eru með ferli yfir svona mál. Við erum ekki með það. Þess vegna kemur skýrslubeiðnin.

Við erum í einhverju ferli þar sem stjórnvöld, framkvæmdarvaldið, ráða engan veginn við ferlið gegn Reykjavíkurborg vegna þess að Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár stöðugt bútað völlinn niður. Mér finnst sumir hv. þingmenn tala um þessi mál af mikilli einföldun, eins og ekki sé samningsvilji og annað, vegna þess að af hendi ríkisins er kannski oft búinn að vera fullmikill samningsvilji gagnvart borginni og það sjáum við skref fyrir skref. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lét vinna tímalínu um málið fyrir nokkrum árum og það gæti verið áhugavert fyrir hv. þingmann að skoða (Forseti hringir.) hvernig allt það ferli fór fram.