150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[17:15]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það er kannski ágætt að einhver nefndarmaður úr umhverfis- og samgöngunefnd tali hér í þessum umræðum um Reykjavíkurflugvöll. Þetta fer yfirleitt þannig að það er sama hvaða tillaga er flutt varðandi Reykjavíkurflugvöll, úr verða töluverðar umræður sem segir sína sögu. Ég lít svo á að kjarnaatriðið í öllu þessu tali um Reykjavíkurflugvöll sé hlutverk flugvallarins sjálfs. Af hverju er hann hér og til hvers er hann o.s.frv.?

Það er alveg augljóst að hlutverk höfuðborgar í samgöngum, og þar með ekki bara hvernig viðkomandi borgarstjórn lítur á það hlutverk heldur líka hvernig landsstjórnin lítur á það, er auðvitað að tryggja að til sé auðveld og greið flýtileið, alls staðar að af landinu. Sumir geta ekið þetta á hálftíma, en að til sé flýtileið fyrir fólk í ótal erindagjörðum til höfuðborgarinnar og til baka aftur. Allar höfuðborgir hafa slíkar flýtileiðir. Yfirleitt er um að ræða járnbrautarstöðvar, voru greinilega mjög oft flugvellir. Aðstæður okkar eru þær að við höfum ekki járnbrautir, við höfum flugið. Það er skylda höfuðborgar að sjá til þess að fólk geti gert nákvæmlega það sem ég var að tala um og að það taki ekki tvo klukkutíma í jafn litlu landi og Ísland er heldur eitthvað styttri tíma. Þetta er líka umhverfismál. Þetta er líka spurning um tíma fólks, að eyða ekki tíma í 8–10 klukkustundaakstur og þegar kemur að kostnaði þreytist ég aldrei á að minna á hvað það kostar raunverulega að keyra 1 km. Ég veifa þessum 100 kr., sem hægt er að komast að hjá fagmönnum, þannig að 500 km akstur kostar 50.000 kr. þegar upp er staðið í árslok.

Allt þetta skiptir máli þegar við erum að hugsa um almenningssamgöngur sem flug er í raun og veru. Flug á að vera og er að verða almenningssamgöngur. Þá þýðir ekkert að setja BSÍ upp á Kjalarnes. BSÍ verður að vera í höfuðborginni og við getum þá horft til Hvassahrauns og spurt: Er það þá ekki framtíðarstaðurinn? Jú, það er verið að kanna það.

Ég vil benda á að kostnaður við slíkan innanlandsflugvöll er 40–50 milljarðar hið minnsta og það tekur 10–20 ár að ganga frá því máli. Þess utan er flugvöllurinn til þar sem hann er. Það leiðir hugann að því hvort við gætum kannski sparað okkur þessa peninga eða hvort þessi flugvöllur er heppilegri þar sem hann er en sá sem hugsanlega yrði í Hvassahrauni. Þá ætla ég að minna á fund sem umhverfis- og samgöngunefnd átti með IATA sem lýsti þeirri skoðun sinni, og færði fyrir því mjög góð rök, að einungis gæti orðið einn alvöruflugvöllur á Íslandi, það sem þeir kalla höfn eða meginflugvöll. Allar hugmyndir um alþjóðlegan flugvöll og innanlandsflugvöll í Hvassahrauni eru að þeirra mati, og reyndar mínu líka, út í bláinn vegna þess að sá flugvöllur yrði aldrei sá varaflugvöllur sem við höfum þörf fyrir. Hann er of nálægt Keflavík til þess. Dregið hefur úr hlutverki Reykjavíkurflugvallar sem varavallar vegna þess að hann getur ekki tekið nema hluta af íslenska flugflotanum. Engu að síður er hann hér. Annað ætla ég ekki að telja upp, eins og sjúkraflug, ferjuflug og einkaflug, það væri tímasóun, en vil þó benda á að þegar við tölum um sjúkraflug eru það þessar ferðir sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson gerði grein fyrir, 700, 800 eða 900 flug fyrirsjáanleg á ári. En flug á stórum þyrlum bætist við og stórar þyrlur þurfa aðflug, þær geta ekki flogið yfir þétta byggð og lent. Þess vegna er þyrluflugpallurinn við Borgarspítalann þar sem hann er vegna þess að við höfum Fossvogsdalinn til að fljúga um eða Fossvoginn sjálfan til að fljúga yfir. Ef stóra hátæknisjúkrahúsið okkar á að vera þar sem það á að vera þarf líka að gera ráð fyrir hluta af þyrlufluginu — nú er ég ekki að tala um litlar þyrlur sem ef til vill á að reyna hér fljótlega heldur er ég að tala um stóru þyrlurnar sem þurfa aðflugsbraut eða aðflugsleið sem er í lagi. Og enn er það Reykjavíkurflugvöllur, að einhverju leyti.

Mig langar líka að koma inn á öryggismálin. Við verðum að gera ráð fyrir neyðarflugi á flugvöll í eða við höfuðborgina. Hér geta orðið stórfelldar náttúruhamfarir og annars konar vandamál geta komið upp. Við erum að horfa á Covid-veiruna sem gæti orðið vandamál. Þá erum við að tala um mikið flug með fólk inn á heilbrigðisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Taka þarf tillit til alls þessa. Ég heyrði einhvern tímann að afleidd störf og störf sem unnin væru á Reykjavíkurflugvelli væru 1.400–1.500, og það skiptir líka máli. Auðvitað gæti það flug flust til Hvassahrauns en sá flugvöllur er ekki í hendi og ekki er víst að hann verði nokkurn tíma byggður. Allt þetta skiptir máli þegar talað er um hlutverk Reykjavíkurflugvallar. Þetta er ekki bara spursmál um skipulagsvald höfuðborgarinnar eða ekki eða lagabreytingar vegna landslaga, heldur að bæði landsstjórn og borgarstjórn taki einfaldlega tillit til þess hvert hlutverk höfuðborgarinnar er þegar kemur að samgöngumálum. Það er enginn að tala um að taka skipulagsvaldið af nokkrum manni hér í höfuðborginni. Það er einfaldlega verið að beina þeim tilmælum til borgaryfirvalda að þau höndli þetta skipulagsvald í þágu alls samfélagsins, landsbyggðarinnar jafnt sem borgarinnar sjálfrar.

Það kann vel að vera að gerðar verði breytingar á Reykjavíkurflugvelli. Við skulum muna að við erum að horfa til 50 og jafnvel 100 ára. Hver í þessum sal getur upplýst mig um hvernig flug þróast næstu 50 til 100 árin? Við verðum líka að taka það með í reikninginn. Það getur vel verið að við getum komist af með mun minni Reykjavíkurflugvöll en hann á samt að vera þar sem hann er út af því hvaða hlutverki hann gegnir. Menn ræða hér um þjóðaratkvæðagreiðslu sem er í raun ekkert annað en stór skoðanakönnun, vissulega ráðgefandi, og látið er að því liggja að hún yrði sjálfkrafa hunsuð af því að það hefur áður gerst. Mér finnst alltaf skrýtið þegar menn hugsa þannig í stjórnmálum og tala um að reynslan hræði og þar með eigi ekki að gera þetta eða hitt. Við höfum þetta lýðræðislega tæki, lýðræðislega leið, til að kanna skoðanir almennings á Íslandi á betri hátt en að ráða Gallup eða einhvern slíkan aðila til þess. Það er í lagi að farið sé í slíkt verkefni og við þurfum ekki að gera því skóna fyrir fram að niðurstaðan verði hunsuð, en það væri mjög forvitnilegt að skoða niðurstöðuna. Við vitum jú hvað þessar litlu skoðanakannanir hafa sagt okkur, að meiri hluti landsmanna vill hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er. Menn geta svo deilt um prósentur og menn geta líka deilt um hversu ráðgefandi skoðanakönnunin var hér í Reykjavík þar sem var 17% þátttaka, að mig minnir, og niðurstaðan varð að Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera hér, sem yrði þá til samanburðar við þessa ágætu þjóðaratkvæðagreiðslu ef til kæmi.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta mjög en hv. þm. Smári McCarthy leiddi að því rökum að mjög mikil mengun væri undir Reykjavíkurflugvelli. Ég hef aldrei nokkurn tíma séð nokkra rannsókn fara fram á því. Ég dreg það stórlega í efa án þess að einhverjar rannsóknir séu þar að baki. Ákvörðunin um framtíð Reykjavíkurflugvallar verður auðvitað tekin hér í þessum sal. Ástæðan fyrir deilunum er ólíkur skilningur á hlutverki Reykjavíkurflugvallar, sem ég minntist á í upphafi, þar sem hann er núna. Stór hluti landsmanna vill ekki lúta ákvörðun Reykjavíkurborgar eins og hún kemur fram. Það er ástæðan fyrir þessum umræðum á þingi og þannig verður það þar til þingið kemst að annarri sameiginlegri niðurstöðu.