150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[17:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir fróðlega umræðu um þessa tillögu sem er um margt ágæt að mínum dómi og þarna kemur margt áhugavert fram. Eins og kemur fram í tillögunni hefur ekki ríkt einhugur um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar eins og við þekkjum öll og löngu orðið tímabært að hætta átökum um Reykjavíkurflugvöll og reyna að finna einhverja sáttaleið í þessum efnum. Ég minni á að árið 2001 var skoðanakönnun eða svokölluð þjóðaratkvæðagreiðsla meðal Reykvíkinga, ef svo má að orði komast, hjá Reykjavíkurborg, þar sem niðurstaðan varð að 49% sem tóku þátt vildu að flugvöllurinn færi burt. Þá var haft eftir þáverandi borgarstjóra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að flugvöllinn ætti að fara burt árið 2016. Þátttaka var mjög dræm.

Þá kemur að því sem maður veltir fyrir sér varðandi þessa tillögu og bara kosningaþátttökuna almennt, hvort það sé áhugi meðal landsmanna á að kjósa um þetta. Það er þess virði að velta því fyrir sér. Auk þess er einnig áhugavert að velta fyrir sér hvað gerist ef niðurstaðan úr þessari könnun verður nei, þ.e. að flugvöllurinn verði ekki áfram í Vatnsmýrinni. Hér hefur flugvöllur í Hvassahrauni verið nefndur og ég held að það sé nauðsynlegt að koma inn á það í þessari umræðu. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og borgarstjóri undirrituðu samkomulag um rannsóknir á möguleikum á byggingu flugvallar í Hvassahrauni í lok nóvember á síðasta ári. Samkomulagið felur í sér að ríki og borg hefji samstarf um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar með því markmiði að fullkanna kosti á því að reisa og reka völl til að gegna hlutverki varaflugvallar, innanlandsflugvallar og flugvallar fyrir æfingakennslu og einkaflug. Rannsóknin kostar ríkissjóð u.þ.b. 100 millj. kr.

Það sem er kannski athyglisverðast við þetta frá pólitísku sjónarmiði er að samgönguráðherra, formaður Framsóknarflokksins, skrifaði undir þetta samkomulag þrátt fyrir að Framsóknarmenn hafi haft það á stefnuskrá sinni að flugvöllurinn ætti áfram að vera í Vatnsmýrinni. Þeir ályktuðu þess efnis árið 2018 á flokksþingi og mig minnir að yfirskrift ályktunarinnar hafi verið „Hvassahraun er ekki framtíðarflugvallarstæði“. Þrátt fyrir þessa afdráttarlausu ályktun Framsóknarmanna var þetta samkomulag gert. Það er áhugavert að sjá hver niðurstaðan verður úr þessu. Það er áætlað að það taki u.þ.b. 15–17 ár að gera flugvöll á þessum slóðum. Hinn valkosturinn er að halda áfram með Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni og bæta úr ýmsu sem þarf í þeim efnum. Það er talað um að það geti kostað um 25 milljarða kr. en hins vegar allt að 40–45 milljarða að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni. Áætlað er að áframhaldandi uppbygging á Keflavíkurflugvelli kosti um 160 milljarða kr.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur ályktað um þessi mál og vakið athygli á nokkrum atriðum varðandi flugvöll í Hvassahrauni. Frá því að flugvöllur í Hvassahrauni var nefndur sem ákjósanlegur valkostur fyrir staðsetningu innanlandsflugs í niðurstöðum nefndar um flugvallakosti á höfuðborgarsvæðinu frá því í júní 2015 hefur þessi umræða komið reglulega upp, segja þeir hjá Reykjanesbæ, og þrátt fyrir að nú séu liðin rétt fimm ár frá því að niðurstaða nefndarinnar var birt virðist þeim spurningum ekki hafa verið svarað hvort æskilegt sé að byggja flugvöll á þessu svæði í miðju óröskuðu hrauni sem jafnframt liggur ofan á og er nærri vatnsverndarsvæði Suðurnesja, svokölluðu fjarsvæði. Í svæðisskipulagi Suðurnesja, sem samþykkt hefur verið af öllum sveitarfélögum svæðisins, er ekki gert ráð fyrir flugstarfsemi í Hvassahrauni. Þá beindi bæjarstjórn Reykjanesbæjar því til svæðisskipulagsnefndar Suðurnesja að hún tæki afstöðu til þess hvort og hvaða afleiðingar slíkur flugvöllur myndi hafa fyrir svæðið og jafnframt skoraði bæjarstjórn á stjórnvöld að sjá til þess að fulltrúar Suðurnesja hefðu aðkomu að þeim starfshópum og nefndum sem fjalla um flugmál þar sem flugsamgöngur ráða miklu um stöðu þess svæðis og aðkomu þeirra sem þar búa. Það hefði að sjálfsögðu eflt og einfaldað alla umræðu hefði verið horft til þeirra hagsmuna í vinnu nefndar um flugvallarkosti á sínum tíma. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar telur einkennilegt að telja Hvassahraun besta kostinn fyrir nýjan flugvöll og fyrrum framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar sagði á sínum tíma, í tengslum við þessa umræðu, að flugvöllur í Hvassahraun myndi þrengja að þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu, það að staðsetja flugvöll 5 km frá jaðri byggðar þýði að byggðin verði búin að færa sig svo nálægt svæðinu að þá verði umræðan komin á sama stað og um Vatnsmýrina. Landvirðið undir flugvellinum verði meira en flugvöllurinn getur gefið frá sér.

Hér hefur verið komið inn á svokallaða Rögnunefnd sem fjallaði um flugvallarstaðsetningu og var með fjóra valmöguleika á sínum tíma, þ.e. Bessastaðahraun, Hólmsheiði, Löngusker og Hvassahraun. Þar var flugvöllur í Vatnsmýrinni og á Keflavíkurflugvelli ekki til skoðunar. Niðurstaðan var sú að Hvassahraun væri besti kosturinn en helsti ókosturinn við staðinn væri hins vegar nálægðin við Keflavíkurflugvöll.

Ég verð að segja það, herra forseti, að ég sé það ekki alveg fyrir mér að ríkið, ríkissjóður, fari að fjármagna framkvæmdir af þessu tagi fyrir u.þ.b. 40 milljarða kr. Það má heldur ekki gleyma því að Hvassahraun er virkt gossvæði og við vorum minnt á það nú í janúarmánuði þegar mikil jarðskjálftahrina hófst nálægt Grindavík og þar eru enn jarðskjálftar og landris var töluvert mikið. Við sjáum að þessi flugvallarkostur sem menn hafa horft til er engan veginn einfaldur og margt sem þarf að huga að í þeim efnum. Persónulega tel ég að þessi kostur sé ekki vænlegur. Ég vísa til vatnsverndarsvæða á Suðurnesjum, til kostnaðar og þess hve stutt er í Keflavíkurflugvöll. Nær væri að þeir fjármunir sem ættu að fara í þetta verkefni færu í frekari uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli.

Verði niðurstaða þeirrar skoðanakönnunar sem lagt er upp með í þessari tillögu sú að flugvöllurinn eigi ekki að vera áfram í Vatnsmýrinni teldi ég nærtækast að horfa til Keflavíkurflugvallar. Hins vegar tel ég að flutningsmenn þessarar tillögu hafi fært mjög góð rök fyrir því að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni. Hér eru mikilvægar tölur tilgreindar um sjúkraflug o.s.frv. og eins og segir í tillögunni þá hníga öll skynsamleg rök í þá átt að halda flugvellinum og miðstöð innanlandsflugs í Vatnsmýrinni. Verði einhver breyting á er nauðsynlegt að þjóðin komi að þeirri ákvörðun og ég tek heils hugar undir að það er nauðsynlegt. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom inn á í sínum málflutningi áðan þegar hann ræddi um skyldu höfuðborgarinnar í þessum efnum. Það eru að sjálfsögðu mjög veigamikil rök. Það að allir landsmenn geti sótt þjónustu í höfuðborginni með tiltölulega einföldum og þægilegum máta skiptir verulegu máli þannig að þetta er ekki einkamál þeirra sem búa í Reykjavíkurborg heldur mál sem snertir alla landsmenn. Að því leyti til tel ég þessa tillögu góða og styð hana.