150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[17:44]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og tækifærið til hennar. Mér dettur enn og aftur í hug, manni líður svolítið svoleiðis, að sum mál séu oftar rædd en önnur hér á þinginu. Og full ástæða til, þetta er risavaxið mál sem er hér undir, hvort innanlandsflugið eigi að eiga heimavöll á Reykjavíkurflugvelli eða einhvers staðar annars staðar. Það hefur margt gott komið fram í þessari umræðu og ég hef stutt það að flugvöllurinn verði þar sem hann er. Ég tek undir þegar talað er um hlutverkið varðandi öryggismálin. Framsögumaður kom ágætlega inn á hlutverk ríkisins í öryggismálum þjóðarinnar og það er alltaf þessi spurning um það hvort verið er að tala um að rífa skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg; málið snýst ansi oft um það hjá þeim sem hafa talað fyrir því að völlurinn fari úr borginni. Hvað varðar landsskipulag má spyrja hvað eigi að vera þar undir. Eru það t.d. flugvellir? Eru það einhverjir tilteknir vegir sem við þurfum að hafa undir í slíku skipulagi frekar en að sveitarfélögin geti hvert og eitt alfarið ráðið einhverju sem getur jafnvel haft gríðarleg áhrif á líf landsmanna? Þetta finnst mér vera eitt af því sem við þurfum að skoða og kannski er ástæða til að ræða það frekar hér á þingi hvort það er eitthvað sem við þyrftum að taka upp og hvort við getum það og þá með hvaða hætti.

Ég hef alltaf talið verðmæti fólgin í því að hafa völlinn þar sem hann er fyrir borgina og hvað varðar þjóðhagslega hagkvæmni af svo ótalmörgum hlutum, fyrir utan þjónustuna sem við höfum verið að byggja upp í kringum flugvöllinn og það að hann sé partur af almenningssamgöngum. Nú erum við að tala um skosku leiðina og sjáum fyrir okkur að það þróist áfram, ég tala nú ekki um þegar nýja borgarlínan verður orðin að veruleika. Ég ætla að vona að við verðum búin að komast að einhverri niðurstöðu fyrir þann tíma. Það er jú eitt af því sem við þurfum að byggja upp samhliða því hvernig við ætlum að hafa þetta innra skipulag. Ég hef haft miklar efasemdir um Hvassahraun í ljósi þess sem maður hefur lesið um það. Ég verð að segja að ég hélt að það hefði verið búið að afskrifa það. Nú skelfur jörð á Reykjanesi og maður hefur áhyggjur af því að þarna sé ekki besti kosturinn. En verður Reykjavíkurflugvöllur þar sem hann er um aldur og ævi? Ég hef ekki hugmynd um það og geri ekki endilega ráð fyrir því. Því miður er staðan samt þannig að okkur hefur ekki tekist að leysa þetta mál. Þessi tillaga er komin hér inn þess vegna, ég skil það. Einhvern veginn höfum við ekki borið gæfu til að leysa þetta mál. Ég hef miklar áhyggjur af því að eftir tvö ár verði staðan sú að norður/suður-brautin verði lögð af. Eins og komið hefur fram hér tekur það fjöldamörg ár að koma upp nýjum velli. Það breytir því ekki að skammur tími er til stefnu hvað þessa braut varðar og eins og hér hefur verið rakið skiptir það gríðarlega miklu máli hvað varðar stöðu vallarins, í hvað við erum að nota hann.

Ég held að við leysum þetta aldrei öðruvísi en með samtali, ég held að það sé bara niðurstaðan. Þrátt fyrir að okkur hafi ekki gengið betur en svo fram til þessa held ég að það sé það eina sem við getum gert. Borg hefur ákveðnu hlutverki að gegna, þess vegna er hún borg. Við eigum bara eina, Akureyri hefur ekki enn fengið hlutverk sitt. En ég vænti þess að ríkið og Reykjavíkurborg nái niðurstöðu innan þessa tíma vegna þess að við þurfum líka, alveg sama hvernig þetta breytist til framtíðar og hversu langan tíma það tæki okkur að koma upp nýjum velli, að geta byggt upp einhverja aðstöðu þarna á meðan. Það verður að vera hægt að byggja upp einhverja þjónustu og annað slíkt á þessu svæði. Allsherjar- og menntamálanefnd fór í morgun í heimsókn í Háskólann í Reykjavík, sem er á þessu svæði, og það var áhugavert. Þar eru menn með mikil áform um byggingar, eru nú þegar að byggja stúdentaíbúðir og eru með mikil áform um kjarna þarna sem yrði mjög fjölbreyttur. Hæstv. forseti, sem situr í stól núna, spurði einmitt spurningar sem áhugavert væri að fá svar við þegar rektor sagði okkur að öll þeirra uppbygging miðaðist við að flugvöllurinn yrði áfram á sínum stað, ekki yrðu breytingar þar á. Einhverjir a.m.k. telja að til næstu framtíðar, til 20 ára framtíðar, sé það það sem er undir.

Þetta klýfur fólk í herðar niður og ég er ekki sannfærð um að þjóðaratkvæðagreiðsla breyti nokkru um ástandið. Hún getur auðvitað skilað niðurstöðu á báða vegu þrátt fyrir að við höfum séð, eins og hér hefur verið rakið, í smærri könnunum að meiri hluti landsmanna sé fylgjandi því að Reykjavíkurflugvöllur sé þar sem hann er og verði áfram með óbreyttu sniði. Af því að þetta er ráðgefandi atkvæðagreiðsla þá breytir það engu gagnvart borginni. Þess vegna held ég að við verðum annaðhvort að velta því fyrir okkur hverju landsskipulag eigi að þjóna — myndi það frekar vera eitthvað sem við þyrftum að gera — eða, og ekkert eða, það þarf alltaf að vera líka undir, að við þurfum að tala betur saman og reyna að horfa raunsætt á málin. Við þyrftum þá að horfa a.m.k. 20 ár fram í tímann og segja: Ókei, það losnar ekkert land hér næstu 20 árin til annarra nota en undir flugvöll og byggingar sem þurfa að vera til staðar til að þjóna þessum flugvelli og út frá því eigum við að miða. Ég vona að við getum tekið þetta lengra en gert hefur verið og að ráðherrar sem að þessum málum koma geri það líka. Það býr til gjá á milli borgar og landsbyggðar að vera sífellt að karpa um þetta og þess vegna held ég að við verðum að ná lendingu. Tíminn er núna af því að svo stutt er þar til næsta ákvörðun verður tekin sem hefur gríðarlegar afleiðingar hvað varðar völlinn og notkun hans.

Það er áhugavert sem rakið er í greinargerðinni með þessu, þar er farið svolítið í gegnum söguna sem við þekkjum kannski, en bent er á að á síðasta þingi hafi þetta mál verið flutt og 21 umsögn hafi borist þar sem yfirgnæfandi meiri hluti sveitarfélaga og samtök þeirra studdu tillöguna sem hér er reyndar borin fram, þ.e. að landsmenn gætu og ættu að hafa skoðun á þessu. Það var bara Reykjavíkurborg sem var á móti því. En ég er ekki viss um að þetta sé samt sem áður besta leiðin af því að hún býr ekki til til neitt nýtt „platform“ fyrir okkur. Við erum áfram í sömu stöðu, eiginlega alveg sama hvernig sú þjóðaratkvæðagreiðsla fer. Jafnvel þó að niðurstaðan yrði afgerandi þá er það samt sem áður þannig að það breytir engu um viðræðurnar, hvort þær ganga vel eða illa.