150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[16:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég velti fyrir mér hvort skilja beri orð hv. þingmanns hér í upphafi sem svo að allt land á Íslandi sé eignarland bænda. Mér fannst hægt að skilja orð hv. þingmanns þannig. Ef það er hans túlkun hlýt ég að mótmæla þeirri túlkun. Það sem hér er verið að gera er að greiða úr því hver á hvað. Það þarf m.a. að gera með því að skoða heimildir, með því að safna gögnum. Þess vegna tel ég það jákvætt að verið sé að einfalda það hvernig hægt er að gera það. Hingað til er það bara ríkið sem hefur ekki haft færi á því að breyta kröfugerð en aðrir hafa hins vegar getað gert það og það þarf að vera eitthvert jafnræði á báða bóga. Ég tel að það sé það sem við erum að gera með frumvarpinu, þ.e. að tryggja jafnræði og að hægt sé að klára þau erfiðu mál sem út af standa þegar kemur að því að marka það hvað eru þjóðlendur og hvað ekki.

Eðli málsins samkvæmt var byrjað á því sem var auðveldast. Það erfiða er eftir og þá þurfum við að hafa skýrt verklag um hvernig það er gert. Ég held að með frumvarpinu sé verið að stíga mjög mikilvæg skref í þá átt að gera það. En líkt og fram hefur komið verður málið tekið (Forseti hringir.) inn á milli umræðna svo að kannski verður skerpt á einhverjum hlutum. En ég endurtek: Ég tel að í grunninn sé um hið besta mál að ræða.