150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[16:47]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er alltaf gott þegar maður getur aðstoðað fólk í lífinu og ýmislegt er til í alheimi hér þó að ekki finnst það á internetinu og þó að ég hafi ekki gert lúsleit í lagasöfnum á netinu. Hins vegar var mælt áðan fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga þeirra sem við erum að fjalla um, frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Þar er farið ágætlega yfir þessi ákvæði Jónsbókar, ákvæði 2. kapítula rekabálks Jónsbókar og komið inn á mjög margt í þeim spurningum sem hv. þingmaður hugsaði upphátt hér í pontu rétt áðan. Komið er inn á það að réttur til fiskveiða og reka byggist á dýptarreglu þeirri sem hv. þingmaður talaði um áðan, 20 möskva selnet. Hér í nefndarálitinu er sérstaklega tilgreint að dýptarreglan kveði ekki á um beinan eignarrétt á hafsbotninum innan þeirra netlaga sem þannig eru skilgreind.

„Umrædd ákvæði Jónsbókar hafa ekki verið felld úr gildi og því kann að vera að eigendur sjávarjarða eigi enn einkarétt til fiskveiða innan þeirra netlaga sem þannig eru afmörkuð samkvæmt Jónsbók.“

Þetta var, með leyfi forseta, þótt beðið sé um það eftir á, upplestur úr nefndarálitinu. Stundum er ágætt að kynna sér gögnin sem liggja undir í málum sem við erum að fjalla um.