150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

breyting á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar.

332. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér kristallast kannski grundvallarmunur á hugmyndafræðinni sem við hv. þingmaður fylgjum. Ég er á því að sérstök rök þurfi fyrir því að leyfisbinda ákveðna atvinnustarfsemi. Það kann að vera að hér á árum áður hafi verið gild rök fyrir því, þó að ég ætli nú að draga það í efa, að það eigi að vera sérstakt leyfi til þess að fá að selja notuð ökutæki. Ég held að þau rök séu bara ekki fyrir hendi. Auk þess sem ég sagði hér áðan má benda á að það eru einkaréttarleg úrræði til handa neytendum að ná fram rétti sínum gagnvart seljendum sem felast í lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendalána, nr. 81/2019. Samkvæmt lögunum mun kærunefnd vöru- og þjónustukaupa leysa af hólmi kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa.

Ég tel að það sé alveg augljóst að þegar við höfum þessi lög í huga, úrskurðaraðila á sviði neytendalána, þegar við höfum samkeppnislögin í huga og lög um viðskiptahætti og markaðssetningu sé ekki með neinum hætti verið að ganga á hagsmuni neytenda nema síður sé. Það gæti jafnvel leitt til þess að þjónusta við þá sem eru að kaupa notaða bíla muni aukast vegna aukinnar samkeppni sem felst í því að fella niður leyfisskyldu.