150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þrátt fyrir að það heyri ekki síst upp á okkur hér á þingi að klára mál sem varða stuðning til einkarekinna fjölmiðla sem búa við erfitt rekstrarumhverfi er ljóst að við eigum mikið af frábæru fjölmiðlafólki sem vinnur ómetanlegt starf fyrir íslenskt samfélag. Það er mikil gróska í íslenskri fjölmiðlun eins og tilnefningar til blaðamannaverðlaunanna bera vitni um en þau verðlaun verða einmitt afhent núna á föstudaginn.

Í gærkvöldi var Kveikur svo með enn eina sterka umfjölluninni á RÚV, umfjöllun sem líklega lét fáa sem á horfðu ósnortna. Umfjöllunarefnið var fátækt í íslensku samfélagi. Þó að staðan komi því miður ekki endilega á óvart var erfitt og sorglegt að upplifa veruleika fólks í okkar litla samfélagi sem býr við fátækt í langan tíma, ólst jafnvel upp við fátækt og er jafnvel þess vegna utan garðs í íslensku samfélagi, mætir fordómum og þarf að beita allri sinni kænsku til að ná endum saman. Það er einfaldlega ömurleg tilhugsun og óásættanleg staðreynd að það fái ekki öll börn tækifæri til að dafna á Íslandi.

Í þættinum var bent á skýrslu um fátækt sem kom út fyrir sléttum sjö árum á vegum samstarfshóps um enn betra samfélag. Útgangspunktur vinnunnar var að stuðningur samfélagsins ætti að stuðla að mannlegri reisn frekar en að vera í formi ölmusu, ganga ætti út frá styrkleikum fólks frekar en veikleikum. Staðreyndin er sú að það þarf mikinn styrk til að komast af við þær aðstæður sem þeir fátækustu búa við í samfélagi okkar. Í þessari skýrslu eru margar og fjölbreyttar tillögur til úrbóta og tillögur til úrbóta liggja víða þannig að í stað þess að skipa í frekari hópa og nefndir er hægt að taka ákvarðanir strax og grípa til aðgerða.

Til að byrja með þarf að tryggja húsnæði, tryggja öllu fólki skjól. Við getum ekki og eigum ekki að sætta okkur við samfélag þar sem börn mæta sársvöng í skólann og fjölskyldur ráða í þokkabót ekki við að greiða gjaldið fyrir skólamáltíðirnar. Getum við ekki sammælst um þá forgangsröðun að grípa til aðgerða sem þarf til að útrýma þessu strax?