150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrir skömmu áttum við þarfa umræðu í þinginu um nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins. Fyrir örfáum dögum ákvað ráðherra að leggja af Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það er sannarlega áhyggjuefni hvað tekur við.

Það er ólíkt hlutskipti að fást við nýsköpun, vísinda- og þróunarstörf á landsbyggðinni eða hér á suðvesturhorninu. Það er algjört lykilatriði að sprotar fái að dafna að þessu leyti um landið allt. Við eigum nokkra slíka og ég nefni bara af handahófi í mínu kjördæmi, Kerecis á Ísafirði, BioPol á Skagaströnd og Verið á Sauðárkróki, Skaginn 3X á Akranesi og Ísafirði, sem raunar er ekki sprotafyrirtæki heldur öflugt framleiðslufyrirtæki, burðarás í atvinnulífinu. Allt ber þetta vitni um hugvit, áræði og dirfsku. Þeir sem starfa á landsbyggðinni nefna í mín eyru að þeir virðist eiga erfiðara uppdráttar að afla sér styrkja til þróunarstarfa og nýsköpunar. Sumir þeirra segja að trúverðugleikinn virki öðruvísi en hjá þeim sem starfa nær styrkjaveitendum, eru þeim sýnilegri, kunnugri, að traust og trú á verkefnið úti um land vanti. Oft sé um huglæga þætti í umsóknum að ræða og þá geti þetta skipt máli.

Opinberum starfsmönnum hefur fækkað á landsbyggðinni og nú er úti um Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sex stöðugildi en voru flest 13 á landsbyggðinni. Nýsköpunarmiðstöð hefur stutt í gegnum tíðina lítil sprotafyrirtæki með þekkingu og leiðbeiningum varðandi rannsóknarstyrki. Það hefur slegið nokkuð á aðstöðumun sem birtist líka í miklum ferðakostnaði þegar leita þarf aðstoðar lykilstofnana á höfuðborgarsvæðinu hér syðra.

Virðulegur forseti. Það er grundvallaratriði að við náum að fjölga fólki með sérfræðiþekkingu á landsbyggðinni, efla fjölbreytileika og möguleikana til að sækja um í harðri samkeppni um rannsóknarstyrki. Þarna virka þróunarsetur og nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar úti um landið hreinlega eins og bræðslupottar fyrir hugmyndir og nýsköpunarverkefni. Hér þurfum við að sækja fram og hvika hvergi.