150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Samgöngur á landsbyggðinni er lúta að umhverfi flugvalla hafa fyrst og fremst verið í formi hátíðarræðuhalda. En hver er hin raunverulega staða og framtíðarsýn samgönguráðherra í þessum efnum? Við getum tekið sem dæmi Egilsstaðaflugvöll en nú hefur rekstri hans verið komið á forræði Isavia til eins árs sem er í raun ekkert annað en feluleikur á ríkisútgjöldum. Áður hafði verið áætlað 18 milljónum í hann til fimm ára. Akureyrarflugvöllur fær klink þrátt fyrir hátíðarræður um mikilvægi hans.

En vellirnir eru fleiri. Það má í þessu samhengi nefna Húsavíkurflugvöll. Milljónirnar sem áætlaðar eru í hann til fimm ára eru teljandi á fingrum annarrar handar. Þar er staðan þannig, herra forseti, að húsnæði vallarins fær ekki eðlilegt lágmarksviðhald og tækjakostur er hreint með ólíkindum. Mokstursbíll og sópur koma frá Akureyri þegar þeir töldust ekki nothæfir þar lengur og eru starfsmenn Húsavíkurflugvallar nánast í fullri vinnu við að halda þessum græjum gangandi. Eins var með sanddreifingarbíl, hann kom líka frá Akureyri þegar Akureyringar gátu ekki lengur notað hann. Og þetta heldur áfram, herra forseti, nú síðast hjólaskófla sem var ónothæf til moksturs á flugvelli á Akureyri. Hún er núna á Húsavíkurflugvelli. Því er eðlilegt að maður spyrji sig: Er það í samgönguáætlun hæstv. samgönguráðherra að gera Húsavíkurflugvöll að einhvers konar ruslahaug fyrir Akureyrarflugvöll?

Herra forseti. Þó að Þingeyingar séu almennt hlynntir varðveislu gamalla samgöngutækja þá sætta þeir sig ekki við að úreld og ónothæf tæki séu notuð til að halda uppi annarri aðalsamgönguæð héraðsins.