150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Fyrir nokkrum árum voru málefni norðurslóða fyrst og fremst málefni vísindamanna og sérvitringa. Svo er ekki lengur. Mikilvægi norðurslóða hefur farið mjög vaxandi samfara hlýnun loftslags og bráðnun hafíss. Mannfjöldaþróun og alþjóðavæðing hefur og mun í auknum mæli valda sókn inn á svæðið. Auknir möguleikar til flutningsleiða og auðlindanýtingar verða til.

Málefni norðurskautsins hafa því fengið aukið vægi í alþjóðastjórnmálum. Ísland er norðurslóðaríki og við eigum gríðarlega ríkra hagsmuna að gæta á norðurslóðum. Gæta þarf að viðkvæmu vistkerfi norðurslóða og mikilvægt er að þróunin á svæðinu sé friðsæl og sjálfbær. Norðurslóðamál eru í senn utanríkismál og umhverfismál.

Þjóð sem í aldanna rás hefur átt allt sitt undir fiskveiðum verður að leggja mikla áherslu á heilbrigði hafsins. Við höfum séð áhrif loftslagsbreytinga á fiskigengd og mikilvægt er að rannsaka enn meira, auka þekkingu og vita hvað er í vændum ásamt því að leita leiða til að draga úr fyrirsjáanlegum breytingum.

Öll helstu ríki heims hafa markað sér stefnu í norðurslóðamálum óháð því hvort ríkin séu norðurslóðaríki eða ekki. Stefna Íslands í málefnum norðurslóða er frá árinu 2011 þegar þingsályktun var samþykkt í þessum sal. Það er því orðið tímabært að endurskoða þá stefnu. Það fór því vel á því að í formennskutíð okkar í Norðurskautsráðinu legði utanríkisráðherra til að þingmannanefnd yrði skipuð til að endurskoða þessa stefnu. Mér hefur verið falið að leiða þá nefnd en í henni sitja fulltrúar frá öllum flokkum á þingi. Ég vænti góðs samstarfs og fjörugrar, upplýsandi og skemmtilegrar umræðu um ógnanir og tækifæri Íslands á norðurslóðum. Ég vona líka að okkur lánist að komast að sameiginlegri niðurstöðu um drög að endurskoðaðri stefnu Íslands í norðurslóðamálum, stefnu sem við getum svo rætt og vonandi samþykkt á þinginu.

Ég hef mikla trú á því, virðulegur forseti, að Ísland hafi gríðarleg tækifæri þegar kemur að norðurslóðamálum. Ég myndi vilja sjá Ísland verða mekka vísindarannsókna í norðurslóðamálum og við gætum verið einhvers konar heimahöfn fyrir nýsköpun á sviði umhverfis- og norðurslóðamála. (Forseti hringir.) Ég held að hér séu mikil tækifæri undir og ég hlakka til komandi vinnu.