150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[15:52]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu því að eins og fyrirkomulagið er nú hér á landi er mikilvægt að við veltum þessum málum fyrir okkur reglulega. Pólitískt jafnrétti felst ekki endilega í jöfnu vægi atkvæða eins og manni virðist við fyrstu sýn og var raunar ágætlega farið yfir af upphafsmanni umræðunnar áðan. Pólitískt jafnræði getur kannski einmitt verið tryggt með misvægi atkvæða. Yfir það fara þeir Birgir Guðmundsson og Grétar Þór Eyþórsson, sem starfa við Háskólann á Akureyri, ágætlega í fræðigrein frá 2013 þar sem þeir fjalla um vægi atkvæða og pólitískt jafnrétti og leitast við að skýra það í tengslum við lýðræðislegt stjórnarfar. Þeir komast að þeirri niðurstöðu að jafnréttið geti falist í ýmsu öðru.

Óneitanlega felst pólitísk slagsíða og aðstöðumunur í því að þjóðþing starfa oft á einum stað og þannig fær nærumhverfi þinganna óhjákvæmilega meira vægi en það umhverfi sem fjær er. Starfsmenn Alþingis koma t.d. flestir af höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég hóf störf hér áttaði ég mig líka fljótlega á því að gestir nefnda eru á köflum býsna þröngur hópur. Þar kemur sama fólkið aftur og aftur í hverju málinu á fætur öðru, mikill meiri hluti frá stofnunum og félögum á höfuðborgarsvæðinu, þótt vissulega séu undantekningar í málum sem sérstaklega varða landsbyggðina eins og byggðaáætlun og samgönguáætlun.

Víða í heiminum er skilningur á því sjónarmiði að eðlilegt sé að atkvæðavægi sé landsbyggðinni í hag í samræmi við þann skilning að þéttbýlið í höfuðborgum njóti nálægðarinnar við miðstöð pólitísks og efnahagslegs valds. Þetta er t.d. viðurkennt bæði í Noregi og Bandaríkjunum. (Forseti hringir.) Hversu mikið misræmið má hins vegar verða er svo önnur spurning.