150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[15:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í kosningunum 2013 féllu niður dauð atkvæði jafn mörg og allir kjósendur í Norðvesturkjördæmi eins og þeir leggja sig. Í þarsíðustu kosningum hefði þáverandi ríkisstjórn ekki getað verið mynduð ef atkvæðavægi og talning atkvæða væri jafnari. Sú ríkisstjórn byggði á kerfisbundinni lýðræðisskekkju. Það er ekki skrýtið að þar hafi orðið pólitískur óstöðugleiki.

Núverandi ástand úti um allt land, á landsbyggðinni eins og á höfuðborgarsvæðinu, er núverandi fyrirkomulagi að kenna. Kvótakerfið er afleiðing núverandi fyrirkomulags í lýðræðinu, byggðastefnan, jöfnunarsjóðurinn og allt þetta. Þetta er afleiðing þess hvernig við stundum stjórnmálin í dag. Ég skora á fólk að segja: Er þetta gott kerfi fyrir landsbyggðina? Ekki fæ ég þau skilaboð þegar ég flakka um landið og spyr hvernig gangi. Allir eru að kalla á miklu meiri vinnu, miklu meiri athygli, miklu betri byggðastefnu o.s.frv. Hið aukna atkvæðavægi landsbyggðarinnar virðist samt ekki vera að skila sér. Vandamálið er nefnilega valdaójafnvægið. Píratar leggja áherslu á sjálfsákvörðunarrétt upp á nálægð að gera og þar skiptir fjárhagslegt sjálfstæði gríðarlega miklu máli. Við tölum um útsvarshlutdeild í t.d. virðisaukaskatti, eignarskatti, fyrirtækjaskatti og þess háttar. Það að vera ekki fjárhagslega sjálfstæður eins og sveitarfélögin eru ekki núna býr til valdaójafnvægi. Valdaójafnvægi núverandi kerfis verður ekki lagað nema með meira sjálfstæði sveitarfélaga sem kæmi þá í stað geðþótta núverandi kjördæmapots. Völdum er misskipt í núverandi kerfi. Jafnt atkvæðavægi fæst bara með meiri valdeflingu sveitarstjórnarstigsins og með því að fækka kjördæmum eða fjölga þingmönnum. Ekkert annað er í boði.