150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[16:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Hér eiga sér stað ágætar umræður og ýmsir möguleikar nefndir í þá veru að leiðrétta það mikla óréttlæti sem sumir upplifa að felist í núverandi kosningakerfi. Ég vil bara ítreka það sem ég kom inn á áðan, það er býsna góð jöfnun á milli flokka undir núverandi kerfi. Flokkar endurspegla innan tiltölulega lítilla skekkjumarka það atkvæðavægi sem þeir fá á landsvísu og ef tillögur eru uppi um að vilji manna sé að komast að fullkomu jafnvægi verður það væntanlega ekki gert af neinu viti nema með því að gera landið að einu kjördæmi. Þá verður staðan sú að ekki er víst að það hafi mikil áhrif á baráttusæti Sjálfstæðisflokksins, hver verði í 4. eða 5. sæti landslista Sjálfstæðisflokksins. Sá frambjóðandi verður í hvíldarinnlögn í kosningabaráttunni. Hv. þm. Haraldur Benediktsson yrði sennilega settur í eitt af baráttusætunum og Brynjar Níelsson í annað og svo mætti lengi telja. Ég er ekki viss um að landsmenn upplifi sérstaklega meira lýðræði í því að vera að slást um einn lista hvers flokks á landsvísu samanborið við það sem nú er.

Ég ítreka það sem ég kom inn á áðan, við verðum að ræða þetta í stærra samhengi. Aðgengi landsbyggðar að stjórnsýslunni er með allt öðrum hætti en þeirra sem búa á milli Hvítánna tveggja.

Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á gestakomur í nefndum og annað slíkt. Fjölmörg sjónarmið eru uppi sem þarf að taka á og ræða, (Forseti hringir.) önnur en akkúrat það hvort við viljum skipta kjördæminu einhvers staðar í miðri götu eða á 3. hæð í blokk einhvers staðar í Breiðholtinu.