150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[16:10]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni þessa sérstöku umræðu um jafnt atkvæðavægi og um leið þakka innlegg hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur í umræðuna. Hér hefur komið fram að þetta er grundvöllur í okkar lýðræðisskipulagi og það má auðvitað spyrja hvort sú nálgun að jafna atkvæðavægi með öllu með því að fara úr því skipulagi sem við höfum og vera með eitt kjördæmi, ef það yrði gert að fullu, myndi endilega tryggja það sem menn kalla pólitískt jafnrétti.

Ég held, virðulegi forseti, á hvorn veginn sem er, eftir að hafa hlustað á þessa umræðu, að á þessum jafnræðiskvarða séu rökin fremur en áður og fyrr einhlít í hvora áttina sem er. Núverandi fyrirkomulag er ekki gallalaust fremur en annað. Hvar sem við myndum lenda á þessum kvarða til að nálgast pólitískt jafnrétti eða forðast einhvers konar misvægi eða valdaójafnvæg gæti til að mynda orðið mun meira ójafnvægi með tilliti til landsvæða ef landið yrði allt að einu kjördæmi. Við förum þá leið í dag að stilla þetta einhvern veginn af með tilliti til kjördæma og hv. málshefjandi tók fram hér að einhvers konar misvægi væri einhvers konar samþykki fyrir því að það væri til staðar.

Í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga frá 145. þingi segir m.a., með leyfi forseta, að gallarnir við að landið yrði eitt kjördæmi væru „að þingmenn verði of fjarri kjósendum sínum samfara minnkandi áhrifum dreifbýlisins hvað fjölda þingmanna varðar“. Flokksræði gæti aukist. (Forseti hringir.) Það liggur fyrir að hjá stærri stjórnmálaflokkum yrði um nokkurs konar sjálfskjör að ræða hjá efstu frambjóðendum. Þetta eru svipuð rök og við heyrum hér í dag. (Forseti hringir.) Ég held að við verðum að stilla af þennan kvarða til að ná sem mestu jafnræði á þessu sviði.